145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt af þessum ástæðum sem ég legg sérstaklega áherslu á þetta tiltekna mál við refsiréttarnefnd. Ég held að mikilvægt sé að henni sé falið sérstaklega að líta til þessa atriðis.

Varðandi unga fólkið, sem ætti kannski að valda okkur mestum áhyggjum þegar kemur að afbrotum, að við getum bjargað unga fólkinu út úr því, þá skulum við samt muna í tengslum við það að í frumvarpinu eru mun ríkari möguleikar til þess fyrir fangelsisyfirvöld að setja menn til samfélagsþjónustu. Mér þykir hins vegar rétt að það sé ekki aðeins á stjórnsýslustigi heldur sé það gert með dómi og þar deilum við skoðun, ég og hv. þingmaður. Ég hygg að það verði fróðlegt fyrir þingið að taka þessi sjónarmið öll til umræðu í nefndinni. Ég geri fastlega ráð fyrir því að allsherjarnefnd muni gera það. Ég held að þetta sé eitt af þeim framfaramálum sem gæti orðið hvað mikilvægast fyrir okkur í fangelsismálum á næstu árum.