145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

25 ára reglan í bóknámi.

[11:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það má vissulega færa fyrir því rök að það sé betra að nemendur séu á svipuðum aldri í framhaldsskólunum en það er hins vegar arfavitlaust, bæði faglega og fjárhagslega, að meina nemendum aðgang að opinberum framhaldsskólum. Það verður líka til þess að færri nemendur fari í nám. Einkum bitna fjöldatakmarkanir á íbúum landsbyggðarinnar. Mörg dæmi eru um fólk sem hefur eftir 25 ára aldur tekið stúdentspróf í framhaldsskólum í heimabæjum sínum, farið eftir það í starfsnám á háskólastigi og sinnir nú margvíslegum störfum í sveitarfélögum á öllu landinu. Sá möguleiki er ekki lengur í boði.

Þó að fjöldatakmarkanir komi niður á báðum kynjum má sjá fleiri dæmi um konur sem fara þessa leið til að ljúka kennaranámi og námi í hjúkrunarfræðum og sinna svo þeim störfum í heimabyggð. Samfélagið treystir mjög á störf þeirra og menntun og ég spyr hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvernig þessi menntastefna samræmist nýsamþykktri áætlun hæstv. ríkisstjórnar um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð.