145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans.

[13:33]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Bankar gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki fyrir efnahagslegan stöðugleika. Ísland á sér ekki langa sögu þegar kemur að bankastarfsemi en það var ekki fyrr en á síðari hluta 19. aldar að Ísland eignaðist sinn fyrsta banka sem var að miklu leyti ákveðið sjálfstæðismál.

Það var ekki farið að huga að einkavæðingu ríkisreknu bankanna af einhverri alvöru fyrr en á 10. áratug síðustu aldar. Rímur nýfrjálshyggjunnar voru kveðnar í tíma og ótíma um að eftirlit með fjármálastarfsemi ætti ekki að vera íþyngjandi og að ríkisrekstur væri í eðli sínu slæmur. Í þeirri stemningu undirbjuggu menn einkavæðingu bankanna. Ég ætla ekki að leggja dóm á það hvort einkarekstur banka er betri eða verri en ríkisrekstur. Það sem skiptir mestu máli er að rekstrarformið sé óháð og þess sé gætt að bankar starfi samkvæmt settum lögum, reglum og góðum siðvenjum um bankastarfsemi.

Það sem kom í ljós við rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis var að siðrof hefði orðið þegar farið var af stað í hina íslensku bankaútrás. Það var ekki hugað að hagsmunum heildarinnar heldur var farið út fyrir öll velsæmismök þegar kom að því að beygja, brjóta eða sveigja reglur.

Virðulegi forseti. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var harðlega gagnrýnt hvernig einkavæðing ríkisbankanna var framkvæmd. Lögin sem heimiluðu einkavæðingu ríkisbankanna fóru óbreytt í gegnum þingið árið 2001 þrátt fyrir að efnahags- og viðskiptanefnd væri klofin í málinu. Varnaðarorð minni hlutans voru virt að vettugi. Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskipta- og efnahagsráðherra, bar þessu við í rannsóknarskýrslu Alþingis, með leyfi forseta: „… framkvæmdarvaldið var náttúrlega mjög dóminerandi í þinginu á þeim tíma.“ Það varð til þess að lög um einkavæðingu ríkisbankanna voru ónákvæm og í reynd ekkert annað en yfirlýsingarheimild til ráðherra um að selja bankana. Ríkisstjórnin fékk því alvald yfir því hvort ætti að selja einn banka eða tvo, hversu stórir hlutir skyldu seldir, hvaða verð væri ásættanlegt, hvaða kröfur væru settar á kaupendur bankanna, hvenær bankarnir yrðu seldir og á hversu löngum tíma. Allt fyrirkomulag sölunnar var í höndum ráðherra. Alþingi var gersamlega vængstýft í málinu, löggjafarvald þess var veikt, eftirlitshlutverk þess brást.

Virðulegi forseti. Það er firra að gera sömu mistökin aftur og aftur og reikna með annarri niðurstöðu. Draugar uppgangsára upphafs 21. aldarinnar svífa yfir vötnum í íslensku samfélagi og núna erum við að fara að eignast annan banka. Ég sé ekki betur en það sé stefna ríkisstjórnarflokkanna að selja þann banka líka. Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari spurningum mínum og þingheims skýrt og skilmerkilega þegar spurt er um einkavæðingarferlið. Afstaða ríkisstjórnarinnar hefur ekki verið nægilega skýr hingað til þegar kemur að því hvort, hvenær eða hvernig ber að einkavæða hlut ríkisins í Landsbankanum. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort standi til að selja hlut ríkisins í Landsbankanum. Ef svo er, stendur til að selja mögulegan hámarkseignarhlut til einstakra aðila? Verður útboð á hlut ríkisins einskorðað við Ísland eða á að bjóða út innan Evrópska efnahagssvæðisins eða jafnvel víðar? Verða einhver tímamörk sett á einkavæðingarferlið?

Þegar bankarnir voru seldir síðast var ferlið á skjön við áður gefnar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um opið ferli, hæfni eigenda og verð. Farið var að síga á síðari hluta kjörtímabilsins og ráðherra undir miklum þrýstingi að klára söluna fyrir kosningar. Það sem réði meðal annars úrslitum var tímahrak og draumur um fallega pólitíska arfleifð. Rétt eins og reifað var í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þá voru markaðsaðstæður ekki hagkvæmar á þessum óskatíma ráðherrans til að ná áðurgreindum markmiðum í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar. Það varð til þess að offramboð varð á íslenskum bönkum á markaðnum og ekki fékkst kjörverð fyrir bankana og þaðan af síður var hæfni eigenda til að stjórna fjármálafyrirtækjum tryggð.

Rétt eins og segir í ljóði Steins Steinars, með leyfi forseta: „Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“. Í draumi nýfrjálshyggjunnar um einkavæðingu bankanna var fallið falið. Það leið ekki einu sinni áratugur þangað til bankarnir gengu aftur til ríkisins og það eftir hrun. Því biðla ég til hæstv. ráðherra um svar við þessum spurningum og lít á það sem hvatningu til að gera betur en síðast.