145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Mikill straumur flóttamanna til Evrópu hefur mikið verið í umræðunni síðustu missiri, eðlilega. Margt af því fólki sem flýr hingað er vitanlega að flýja átök víðs vegar í heiminum og ég tel að raunar að efnahagslegar ástæður séu fyrir því, sem skýri stóran hluta þessara átaka, og arðrán og misskipting auðs sem ekki sér fyrir endann á. En það eru hins vegar ekki allir flóttamenn að flýja átök, því að því miður býr allt of stór hluti mannkynsins við örbirgð. Ég held að hluti þessara flóttamanna búi við örbirgð heima fyrir og sé að flýja hana. Svo bætast loftslagsbreytingar með tilheyrandi áhrifum á jarðgæði og möguleika fólks til þess hreinlega að komast af heima hjá sér við þetta allt saman. Nú er það meira að segja orðið þannig að þegar við tölum um fjölda flóttamanna erum við farin að tala um þjóðflutninga.

Ég held að fæsta þessa flóttamenn langi til að flýja heimahaga sína sem þeir þekkja og splundra fjölskyldum sínum þar sem ólíklegt er að heilu stórfjölskyldurnar endi saman á svipuðu svæði þegar fólk er komið eitthvað í burtu. Mér finnst þróunarsamvinna og umræða um hana skipta máli inn í þá hnattrænu og heimspólitísku mynd sem blasir við okkur í samtímanum, vegna þess að með þróunarsamvinnu er verið að styrkja innviði fátækra samfélaga og aðstoða fólk til þess að geta bjargað sér sjálft og byggja sér og sínum framtíð í heimahögum sínum.

Það er ekki hvað síst vegna þeirrar heimspólitísku myndar sem mér finnst grætilegt að nú þegar við erum að ræða þróunarsamvinnu á Alþingi Íslendinga séum við ekki að ræða framtíðarsýn, markmið, það hvernig við getum hækkað framlög Íslands, sem er meðal ríkustu þjóða í heimi, til þess að það standi sig betur þegar kemur að því að leggja til peninga og hjálpa fátækustu ríkjum í heimi að styrkja og byggja innviði sína. Nei, við erum þess í stað að ræða stofnanastrúktúrinn hérna. Ég ætla síðar í ræðu minni að koma betur að því hvers vegna ég tel þennan breytta stofnanastrúktúr verða til þess að veikja þróunarsamvinnu og vera skref í ranga átt.

Mig langar líka áður en lengra er haldið að ítreka það sem hefur komið fram hér margoft, bæði í dag og í gær, bæði í ræðum hv. þingmanna og ekki síður í umræðum um fundarstjórn hæstv. forseta, og það er að hæstv. utanríkisráðherra sé ekki við umræðuna. Þó svo að auðvitað megi segja að málið sé við 2. umr. á forræði þingsins þá snýst málið um að leggja niður stofnun, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, og færa alla þróunarsamvinnu inn í utanríkisráðuneytið, ráðuneyti hæstv. utanríkisráðherra. Mér finnst að þess vegna beri honum rík skylda til að vera við umræðuna og taka þátt í henni, því að þótt hann hafi verið við 1. umr. málsins standa enn þá út af spurningar sem við hv. þingmenn minni hlutans höfum beint til hæstv. ráðherrans og teljum okkur ekki hafa fengið fullnægjandi svör við. Svo er það svolítið merkilegt að í 2. umr. á þingi um þetta mál skuli það aðeins vera minni hlutinn sem tekur til máls í ræðum.

Engu að síður var það svo að málið var á þessu þingi keyrt ansi hratt í gegnum hv. utanríkismálanefnd. Mér finnst sérkennilegt að í ljósi þess að talið var að hafa þyrfti hraðar hendur og þau rök notuð að málið hefði fengið ítarlega umfjöllun á síðasta þingi, sem er svo sem alveg rétt og ég tel auðvitað gott, séu þeir hv. þingmenn meiri hlutans sem lögðu áherslu á að flýta umræðu um málið ekki á mælendaskrá til að verja það nefndarálit sem þeir settu nafnið sitt undir og lögðu til með því að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt.

Raunar er það mín skoðun á nefndaráliti hv. meiri hluta utanríkismálanefndar að það sé lítið annað en útdráttur úr greinargerð frumvarpsins og ekki í rauninni nema í síðustu efnisgreininni sem kemur eitthvað beint fram frá meiri hluta hv. nefndar. Þar ítrekar meiri hlutinn alla vega að hann leggi áherslu á að nauðsynlegt sé að gæta að hagkvæmni og skilvirkni alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og að hún verði rekin með sem bestum árangri. Það er einmitt það sem við þingmenn minni hlutans á Alþingi höfum í ræðum okkar í dag dregið í efa að þetta frumvarp geri.

Ég hefði gjarnan viljað heyra, eigum við að segja meiri vörn fyrir þessu frumvarpi og geta átt meiri rökræðu um skiptar skoðanir í málinu. Það er alveg rétt það vantar ekki að við höfum staðið hér frá minni hlutanum og reynt að færa sem best við getum rök fyrir því hvers vegna okkur finnst þetta frumvarp um að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og færa inn í utanríkisráðuneytið slæmt.

Að öllu því sögðu ætla ég að fara aðeins betur í rökin.

Meðal þess sem minni hluti hv. utanríkismálanefndar, sem og aðrir þingmenn í stjórnarandstöðunni, hefur gagnrýnt í ræðum sínum er að við teljum þetta frumvarp hreinlega vanbúið og óljóst og að það hljóti að byggja á misskilningi. Við fáum ekki séð hvaða vanda er ætlað að leysa með því að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður, einfaldlega vegna þess að við komum ekki auga á hvað er að Þróunarsamvinnustofnun. Þvert á móti liggja fyrir gögn um það og allir virðast sammála um það að Þróunarsamvinnustofnun hafi í störfum sínum verið til algjörrar fyrirmyndar og hafi staðið sig með prýði. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir lýsti því yfir áðan að á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hafi hún fengið að heyra lof og hrós um störf Þróunarsamvinnustofnunar, sem hefur margsannað sig í alls konar óháðum úttektum sem hafa verið gerðar.

Í greinargerðinni með frumvarpinu sjálfu er lögð á það áhersla og notað sem rök að í úttekt sem DAC gerði á þróunarsamvinnu Íslands og er frá árinu 2013 sé lagt til að stjórnvöld leggi mat á skipulagið sem er á þróunarsamvinnu og því velt upp hvernig hægt sé að ná hámarksárangri og skilvirkni. En það er hvergi í þeirri umfjöllun DAC að finna nokkra vísbendingu um að Þróunarsamvinnustofnun beri að leggja niður heldur er þar, líkt og á öllum öðrum stöðum þar sem fjallað er um Þróunarsamvinnustofnun, verið að hrósa stofnuninni og benda á að starf hennar sé skilvirkt. Það er einmitt sérstaklega tekið til þess að þó svo að Ísland sé lítið og framlag okkar til þróunarsamvinnu miðað við mörg önnur vestræn ríki kannski lágt þá nýtist peningarnir gríðarlega vel. Þetta finnst mér skipta alveg gríðarlega miklu máli. Það er reyndar vert að benda á að úttekt DAC á þróunarsamvinnu kom í kjölfar þess að Alþingi hafði ályktað og áætlað að fara að verja mun hærri upphæðum í þróunarsamvinnu en nú er verið að gera. Í því ljósi er auðvitað ekki nema eðlilegt að farið sé í saumana á því hvernig peningum er ráðstafað, þegar á að koma innspýting. En það hefur verið horfið frá því og má því kannski draga í efa miðað við núverandi framlög til þróunarsamvinnu hversu mikið erindi eða hversu mikið vægi þetta hafi inn í umræðuna, eins og málum er háttað akkúrat núna.

Það er eitt mál sem hefur verið mér mjög hugleikið í allri þessari umræðu og ég gerði að sérstöku umtalsefni við 1. umr. málsins. Eitt af því sem ég tel vera það alversta með tillögunni um að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og færa alla starfsemina inn í ráðuneytið er að þar með sé hægt að styrkja tengslin á milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Það hugnast mér alveg einstaklega illa og ég verð að segja það að eftir þá stuttu umfjöllun sem málið fékk í utanríkismálanefnd á þessu þingi, þar sem ég er nýr nefndarmaður, þá gerðist ekkert annað en að ég styrktist í þeirri trú minni að það sé mjög slæm ráðstöfun að ætla að blanda þessu tvennu saman. Það kom ítrekað fram í máli gesta á fundum í hv. utanríkismálanefnd að það að styrkja tengslin á milli annarra utanríkismála og þróunarsamvinnu feli í sér hættu á því að þróunarsamvinna verði tengd við aðra og óskylda þætti í utanríkisstefnunni og að hættan sé sú að þróunarsamvinna verði ekki lengur einungis rekin með hagsmuni fátækra ríkja að leiðarljósi heldur fari viðskiptahagsmunir og aðrir hagsmunir Íslands, sem er eins og ég sagði áðan ein af ríkustu þjóðum í heimi, að skipta meira máli inn í þá umræðu.

Meðal þess sem bent var á fyrir nefndinni var einmitt að þróunarsamvinna væri langhlaup og því mikilvægt að hún væri stöðug og ekki háð pólitískum sviptivindum. Það kom einnig fram, líkt og ég var að segja, að ekki væri heillavænlegt að blanda saman viðskiptahagsmunum og pólitískum samskiptum. Engu að síður var bent á að vitaskuld væri mikilvægt að eiga í viðskiptum við þróunarlönd og að viðskiptahindranir væru ekki góðar en að þetta væru tvö gjörólík og aðskilin mál sem ekki ætti að blanda saman. Annars vegar værum við með þróunarsamvinnuna, sem rekin er á forsendum viðtakendaríkjanna, fátæku ríkjanna, og hins vegar viðskiptin sem við getum vonandi átt við þau ríki þegar þau hafa aðeins náð að byggja upp innviði sína og styrkja stöðu sína.

Ég verð að viðurkenna að þetta er stórt atriði sem situr alveg rosalega í mér því að mér finnst þetta svo vond pólitík í alla staði. Eins og ég kom inn á í upphafi ræðu minnar er það skoðun mín og trú að undirrót til að mynda átaka, og ég vil hreinlega taka svo djúpt í árinni að segja margra vandamála í heiminum, skýrist af arðráni og misskiptingu þar sem vestrænar ríkari þjóðir hafa í gegnum árin og aldirnar arðrænt önnur lönd. Ég er skíthrædd um að hér séum við að finna leið til þess að halda því arðráni áfram, en undir hinu fallega nafni þróunarsamvinna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég er tilbúin til þess að standa hér ansi lengi og tala gegn því og mun gera það eins lengi og ég tel þurfa.

Annað sem kom fram á fundum hv. utanríkismálanefndar er ótti um að fagþekking og kunnátta glatist með því að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og færa alla starfsemina inn í ráðuneytið. Störf sem unnin eru af Þróunarsamvinnustofnun krefjast sérhæfingar og þekkingar á þróunarsamvinnu en ráðuneyti starfa með allt öðrum hætti. Þar er til að mynda flutningsskylda á starfsmönnum þannig að það má leiða að því líkur að vegna þess hvernig ráðuneyti er byggt upp verði aldrei til nein fagþekking. Ég held að það geti enn ýtt undir hættuna á því að við förum einföldu leiðina og hugsum hvernig við græðum sem mest á þessu, hvernig við fáum sem mest út úr þessu.

Hæstv. forseti. Ég sé að tíminn hefur hlaupið frá mér. Ég er ekki búin að koma að nærri öllum þeim atriðum sem mig langaði að tæpa á (Forseti hringir.) í þessu máli. Ég held (Forseti hringir.) að ég verð því að biðja um það að ég verði sett aftur á mælendaskrá og geti þá (Forseti hringir.) klárað að fara í gegnum punktana mína.