145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

flugvallarsvæðið í Vatnsmýrinni.

158. mál
[15:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Heiða Kristín Helgadóttir) (Bf):

Herra forseti. Þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við völdum sumarið 2013 voru verkefni tengd menningararfinum flutt úr menntamálaráðuneytinu og yfir í forsætisráðuneytið. Eitt afsprengi þessa yfirflutnings er frumvarp sem samþykkt var á síðasta þingi um verndarsvæði í byggð sem heimilar ráðherra inngrip í skipulagsvald sveitarfélaga með því að hafa frumkvæði að því að leggja til við Minjastofnun að tiltekin svæði í byggð verði vernduð. Sjálfri er mér þó enn á huldu hvað gerist ef uppi er ágreiningur um frumkvæði ráðherrans og vilja viðkomandi sveitarfélags til að koma til móts við þetta frumkvæði en svör við því fást vonandi í boðaðri reglugerð um málið.

Annað afsprengi þessa yfirflutnings er drög að breytingum á lögum um menningarminjar. Árið 2012 voru samþykkt á Alþingi ný heildarlög um menningarminjar. Samkvæmt heimasíðu forsætisráðuneytisins komu fram tilmæli um breytingar á þessum lögum og því var farið af stað að skoða þau. Gott og vel, en í þessum drögum kemur fram að mínum dómi skýr vilji hæstv. forsætisráðherra til að taka sér mikið vald sem er illa skilgreint og meira en góðu meðalhófi gegnir. Þar skín líka í gegn að mínu viti vilji hæstv. forsætisráðherra til að hafa áhrif á skipulagsmál sveitarfélaga en það er mjög skýrt í lögum að skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögum en ekki ríkisvaldinu. Það er aðallega 10. gr. þessa fyrirhugaða frumvarps á málaskrá ríkisstjórnarinnar sem ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra út í því að hún mundi veita honum heimild til að taka lönd og byggingar eignarnámi án aðkomu nokkurra annarra aðila.

Framsetning þessa ákvæðis fær mig til að halda að hæstv. forsætisráðherra vilji búa sér til svigrúm til að taka geðþóttaákvarðanir í skipulagsmálum. Önnur ummæli forsætisráðherra, m.a. í ræðustól Alþingis, fá mig til að halda að hæstv. forsætisráðherra sjái engan nema sig einan sem sérstakan verndara menningararfs okkar og minja sem séu í hættu vegna ágangs nútímans. Það tel ég vera rangt — auk þess sem nægilegar heimildir eru í núgildandi lögum til að standa faglega og vel að slíkri vernd. Að taka lönd og mannvirki eignarnámi er mikið inngrip og því er rík krafa á ráðherra sem leggur sig fram að hann útskýri þannig að ekki verði um villst hvernig staðið skuli að slíkum ákvörðunum, hvers vegna hæstv. forsætisráðherra telji þörf á slíku ákvæði og í hvaða tilvikum reynt geti á beitingu slíks ákvæðis.

Eitt dæmi sem mér dettur í hug er eignarnám og friðlýsing á landsvæði og byggingum í Vatnsmýrinni. Sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að beita þessum lögum, verði frumvarpið lagt fram og samþykkt, á landsvæði eða byggingar í Vatnsmýrinni og þar með leggja enn einn stein í götu þeirra sem vilja reisa þar 20 þús. manna byggð í samræmi við samþykkt aðalskipulag Reykjavíkur í ekki svo fjarlægri framtíð?