145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

trygging fyrir efndum húsaleigu.

313. mál
[16:01]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda þessa mikilvægu fyrirspurn. Það sem ég vil segja hér er að mikilvægt er að horfa á heildarmynd þeirra húsnæðisfrumvarpa sem koma inn í þingið á næstu dögum og að þau nái fram að ganga því að þar munum við sjá, eins og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra kom inn á, aukinn stuðning við þá sem fara inn á leigumarkaðinn og aukið framboð á íbúðum. Ef við erum með aukið framboð lækkar vonandi leiguverð. Jafnframt verða fundnar ýmsar hvataaðgerðir til langtímaleigusamninga. Það er mjög mikilvægt að horfa á heildarmyndina.

Ég fagna nýjum hugmyndum sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra leggur til um mismunandi leiðir í því að leggja fram tryggingu fyrir húsnæði af því að raunveruleikinn er sá að hópur fólks á erfitt með að leggja (Forseti hringir.) fram tryggingar og því er afar jákvætt að boðið verði upp á fleiri (Forseti hringir.) en eina ákveðna aðgerð í þeim efnum.