145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér kemur hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason upp og segir að allt hafi verið eðlilegt. Málið hafi farið í gegnum nefndina með fullkomlega eðlilegum hætti, engar þvinganir og ekkert offors hafi átt sér stað. Eigum við ekki að lesa saman fundargerðina frá 15. október síðastliðnum, daginn eftir að umsagnarfresti um málið lauk? Þar segir, með leyfi forseta:

„Óttarr Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir og Össur Skarphéðinsson lögðu fram skriflega beiðni, með vísan til 15. gr. þingskapa, um að boðaður yrði nýr fundur um málið og tilgreindir gestir yrðu kallaðir til. Formaður varð við beiðninni og boðaði jafnframt að málið yrði afgreitt úr nefnd á þeim fundi.“

Þetta voru vinnubrögðin, virðulegi forseti, bókað og skjalfest í fundargerðum Alþingis. Eru þetta vinnubrögðin sem við viljum tileinka okkur, að daginn eftir að mál komi úr umsögn þá séu þau rifin úr nefnd eða boðað að svo (Forseti hringir.) verði gert? Það er náttúrlega óttalegt vesen að þurfa að hlusta á einhverja leiðindagesti, fólk sem gæti haft einhverja faglega þekkingu á málum, (Forseti hringir.) en við það verða menn að una séu þeir þingmenn á hv. Alþingi.