145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:23]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er með offorsi verið að leggja niður sjálfstæða stofnun með mikilvægan og viðkvæman málaflokk án þess að menn hafi sýnt þinginu þá virðingu að veita málinu eðlilega málsmeðferð. Það er rifið úr nefnd með offorsi, ráðherra er fjarverandi umræðu um málið meginhluta umræðutímans, stjórnarþingmenn sjást varla í umræðunni og nánast enginn sem hefur talað fyrir málinu. Síðan er lagt til að hér eigi að halda kvöldfund á miðvikudegi, að nýafstöðnum kvöldfundi á þriðjudegi til að ræða málið langt fram í myrkur. Auðvitað erum við tilbúin til þess. Málið er slæmt. Það er lengi hægt að tala um það og færa rök gegn því að þessi mikilvæga stofnun, sem hefur fengið þann dóm að hún sé til fyrirmyndar, skuli lögð niður með slíku offorsi og ég er auðvitað mótfallin kvöldfundi af því tilefni.