145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:31]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég segi nei við þessum kvöldfundi. Ástæðan er sú að ég tel að ekki sé fullreynt að menn setjist niður og reyni að ræða saman og komast að einhverri niðurstöðu. Ég segi líka nei vegna þess að við vorum beitt ofbeldi þegar málið var rifið í gegnum nefndina og það heldur áfram í þingsal. Forseti reynir ekki að tryggja rétt okkar til að fá að taka þátt í vandaðri umfjöllun um málið.

Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með þátt forseta í málinu vegna þess að í gær óskuðum við ítrekað eftir því að hann gæfi okkur álit sitt á því að máli sem kæmi úr umsagnarferli væri rúllað nánast án umræðu í gegnum nefndina þrátt fyrir mótmæli minni hlutans. Er það vinnulag sem þóknast forseta?

Ég vil bara fá svör við þessum spurningum nema svarið sé nú á leiðinni með því að forseti ætli að taka þátt í því að keyra málið í gegnum þingið á kvöldfundi. Ég mótmæli því. Ég verð að segja alveg eins og er að þingið og forseti valda mér miklu vonbrigðum í dag.