145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:19]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég er hér í minni fyrstu ræðu um þetta mál. Ég verð að segja að eftir að hafa fylgst með umræðunni um málið hef ég orðið fyrir miklum vonbrigðum með hvernig tekið hefur verið á því hér á Alþingi. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum einfaldlega út af því að Þróunarsamvinnustofnun og þróunarsamstarf okkar Íslendinga hefur alltaf staðið fyrir utan átakapólitík. Þetta er í fyrsta skipti síðan ég fór að fylgjast með störfum þingsins sem þessi mikilvægi og viðkvæmi málefnaflokkur er allt í einu orðinn að bitbeini. Það er ekki þannig að málið sé eingöngu tæknilegs eðlis. Miðað við það sem ég heyrði í þau skipti sem ég náði að fylgjast með fundum í utanríkismálanefnd, sem voru allt of fáir, kom fram að líklegt væri að mikið af þeirri sérþekkingu sem nú er til staðar í stofnuninni fylgdi ekki með inn í utanríkisráðuneyti. Það er slæmt.

Það er líka mjög slæmt ef maður hugsar út í það, og nú er ég mjög mikil kerfiskerling, ég hef rosalega gaman af því að skoða kerfi, að þegar stofnun er tekin og færð inn í ráðuneyti þá glatar hún töluverðu af sjálfstæði sínu gagnvart framkvæmdarvaldi og ráðherra. Það er miður. Það er ljóst að hér á landi þarf að fara fram gagnger og ítarleg skoðun á því hvernig kerfið okkar virkar. Mér finnst nauðsynlegt að færð séu fram rök þegar við tökum svona stórar ákvarðanir, þótt þessi stofnun sé ekki stór, eins og margar aðrar sem hafa verið teknar í stuttri valdatíð núverandi ríkisstjórnar eins og t.d. um málefni Fiskistofu. Það er svo vont þegar svona er gert án þess að almennileg rök séu fyrir því. Ég hef ekki getað fengið þau rök frá utanríkisráðherra sem sannfæra mig um að það þurfi að gera þetta og það sé nauðsynlegt. Það hefur verið sagt að ef eitthvað er ekki brotið eigi maður ekki að reyna að laga það því þá gæti maður brotið það. Ég óttast að við séum að gera eitthvað sem verður erfitt að snúa við og breyta eftir á. Mér finnst að við ættum að fylgja eftir tillögu sem kom frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og bíða með málið þangað til á næsta kjörtímabili.

Það sem ég tel brýnast núna er að málið verði tekið til nefndar og fram fari ítarleg vinna þar sem reynt verði að ná þverpólitískri sátt um þennan málaflokk. Þetta snýst ekki bara um að færa stofnun, þetta snýst um miklu meira. Það sem mér finnst svo sorglegt er að þegar var þröngt um hjá okkur skynjuðum við og skildum neyð þeirra sem búa við mestu fátæktina í heiminum okkar. Þá vildum við færa okkur nær þeim þjóðum sem við lítum gjarnan til þegar kemur að markmiðum okkar í því hvað við tökum mikið af okkar sneið og aðstoðum þjóðir sem búa við örbirgð. Gleymum því ekki að við vorum svo lánsöm, þessi einangraða, fátæka þjóð fékk Marshall-aðstoð sem hjálpaði okkur upp úr örbirgð meira en nokkuð annað því að með henni gátum við byggt innviði. Þess vegna þótti mér svo fallegt og ég var svo sátt þegar við samþykktum einróma, fyrir utan einn þingmann, að vera örlát. Við vorum þó ekki örlátari en svo að við vorum samt að deila minna af okkar köku en allir í kringum okkur.

Síðan er það svo að þrátt fyrir að núverandi ríkisstjórn berji sér á brjóst sýknt og heilagt á Alþingi og í fjölmiðlum og víðar yfir því hvað hér ríki mikið góðæri getum við allt í einu ekki verið örlát. Þá höfum við ekki nægilega samkennd til að skilja hve mikilvægt það er að styðja við þjóðir sem eru að reyna að koma sér upp úr því ástandi sem við vorum eitt sinn í. Við höfum aldrei sem þjóð slegið hendinni á móti því þegar okkur er boðin aðstoð. Mikið vorum við sár og leið þegar vinaþjóðir okkar vildu ekki lána okkur peninga til þess að, eins og sagt er á ensku, með leyfi forseta, „bail out the banks“, þegar hér varð mikið hrun. Mikið mærðum við þjóðirnar sem stóðu á bak við okkur í þrengingum okkar. Þess vegna er það svo að þegar vel gengur og það eru ágætishorfur miðað við fjárlögin og hvernig þetta var eftir hrun ætlum við að draga úr örlæti okkar. Þá ætlum við bara að huga að sjálfum okkur.

Það er í raun og veru í samræmi við athyglisverða könnun sem ég las að mig minnir á síðasta kjörtímabili, það er svo langt síðan. Það var gerð könnun á örlæti. Þeir sem áttu minnst voru örlátastir, þeir sem áttu mest áttu erfiðast með að deila með öðrum. Svolítið sérstakt. En þetta er víst í mannlegu eðli. Það er okkar, þingsins, að sporna við þessu eðli. Það er okkar sextíu og þriggja, reyndar mínus tíu þar sem ráðherrarnir eru nánast aldrei hérna, að veita aðhald þeirri freistingu að hygla sér þegar maður á mikið. Sú tilhneiging sýnir auðvitað mjög ólíkar áherslur á útdeilingu gæðanna.

Núverandi ríkisstjórn hefur ákveðið að sinna minnst þeim sem hafa það hvað verst og gera mest fyrir þá sem hafa það sem best. Það finnst mér vera ömurleg þróun. Núna hafa til dæmis verið töluverðar umræður um það hvernig við sem fáum launahækkanir samkvæmt úrskurði kjararáðs fáum þær afturvirkt til mars en af einhverjum ástæðum hef ég ekki heyrt neinn stjórnarþingmann eða neinn stjórnarþingmann í fjárlaganefnd ræða um að hið sama ætti gilda t.d. um öryrkja og þá ellilífeyrisþega sem fá laun sín frá Tryggingastofnun. Auðvitað yrði maður ánægður ef jafnt mundi yfir alla ganga og við mundum deila jafnt til þeirra sem eiga bágt hér og annars staðar. En fólk verður auðvitað að átta sig á því að það er ekki stefna þessarar ríkisstjórnar. Auðvitað á maður ekki að ætlast til að ríkisstjórn sem hefur það ekki á sinni stefnuskrá geri eitthvað slíkt. Samt skulum við reyna.

Þá vind ég mér að Þróunarsamvinnustofnun. Ég sé að hæstv. utanríkisráðherra er kominn í salinn og mig langar að ítreka að hann svari þeim fimm spurningum sem lagðar voru fyrir hann af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í gær. Það væri mjög gagnlegt fyrir okkur. Það væri líka afskaplega ánægjulegt og þarft þegar við erum að reyna að finna lendingu sem sátt gæti skapast um um þessa tilteknu gjörð ef maður mundi eiga í samræðu í þingsal við meiri hlutann og ráðherrann sem vill fara þessa leið. Einhvern veginn hefur hæstv. utanríkisráðherra tekist að styggja þingheim oftar en einu sinni. Þar er skemmst að minnast tilrauna til að fara fyrst með ályktun í gegnum rétta leið, sem er þingið, um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og síðan að fara hreinlega á skjön við þingið. Ég hefði talið að það væri ekki löglegt. Ef það er löglegt er það alla vega siðlaust. Til að fella úr gildi þingsályktun sem þingið hefur samþykkt hlýtur að þurfa að leggja fram aðra tillögu og fá hana samþykkta. Mér finnast svona stjórnarhættir vera algerlega í anda gamla Íslands. Við mörg sem hér á landi búum töluðum mikið um nýja Ísland eftir hrun. Sú aðferðafræði sem við upplifum hér varðandi Þróunarsamvinnustofnun er gamla Ísland í hnotskurn. Við verðum oft vitni að þessu núna. Mér finnst svo skringilegt að vera á þingi og upplifa að við förum ekki áfram heldur aftur á bak. Þess vegna held ég að margir séu að missa vonina um að hægt sé að breyta hlutunum. Mér finnst það ömurlegt.

Ég vil leggja til að hv. formaður utanríkismálanefndar finni leið til að tryggja að við getum náð lendingu með þetta mál. Nú hefur minni hlutinn komið með ákveðnar tillögur sem mér finnst vert að skoða. Mér legg þetta til líka í ljósi þess að það var hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi ráðherra innanríkismála, sem skipaði þverpólitíska nefnd um afar erfiðan málaflokk við gerð nýrra laga um málefni útlendinga og lagarammann allan þar í kring sem er eitthvað sem oft hefur endað út í skurði því ekki hefur tekist að ná þverpólitískri sátt og sátt þvert á ráðuneyti. Sem betur fer hélt þessi starfshópur þingmanna áfram að vinna saman í góðu samstarfi við sérfræðinga í ráðuneytinu og núverandi innanríkisráðherra. Mér finnst mikilvægt að því sé haldið til haga að það var þáverandi innanríkisráðherra sem lagði mikla áherslu á að hér væru stunduð öðruvísi vinnubrögð, vinnubrögð sem væru á þann veg að reynt væri að ná þverpólitískri sátt, sér í lagi um erfiða málaflokka svo við kæmumst upp úr þessari átakahefð. En af einhverjum ástæðum er ákveðið, þegar viðkomandi er kominn í kjörstöðu til að halda áfram á þeirri vegferð, að rífa málið út úr nefnd án þess að það sé nægilega þroskað.

Þess vegna erum við, kæru hv. þingmenn og forseti, að þrátta um þetta mál. Þess vegna erum við að draga lappirnar. Málið fékk ekki að þroskast í utanríkismálanefnd. Þar er eðlilegur farvegur fyrir það að þroskast. Enn hefur ekki komið fram hjá hv. formanni utanríkismálanefndar og þeim þingmönnum meiri hlutans sem eru í þeirri nefnd sem og öðrum þingmönnum meiri hlutans vilji til að leyfa málinu að þroskast í nefndinni. Þess vegna stöndum við hér og mótmælum því hvernig málinu hefur undið fram því maður upplifir auðvitað, og það er kannski gróft að segja það, að þetta sé meirihlutaofbeldi, þarna sé verið að slíta ávöxt sem ekki er þroskaður af trénu. Það er rosalega erfitt að setja ávöxt sem slitinn hefur verið af trénu aftur á það. Við verðum að finna einhverja leið í þessum málaflokki. Við erum komin í það miklar ógöngur að ég veit ekki hvort sé hægt að laga þetta. Það stendur upp á formann utanríkismálanefndar sem og hæstv. utanríkisráðherra að finna leið til að setja þetta mál í ásættanlegan farveg. Við þingmenn minni hlutans höfum kallað eftir samræðu. Við höfum ekki fengið hana. Það er miður. Allir þessir nýju þingmenn sem eru hér, sér í lagi Framsóknarflokksins, hafa ekki sýnt í verki að þeir vilji öðruvísi vinnubrögð á Alþingi. Ekki eru þeir hér að ræða við okkur. Enginn vill tala við minni hlutann þegar minni hlutinn óskar eftir því. Mér finnst það svolítið hallærislegt að vera í þeirri stöðu að standa hérna og tala við fólk sem maður veit að er sammála manni og vill eiga í rökræðu við og þróa málið áfram, en enginn vill eiga í samtali við okkur. Ég gæti alveg eins lesið upp úr símaskránni, sem er reyndar í útrýmingarhættu, það mundi hafa sömu áhrif á meiri hlutann. Ég gæti lesið upp úr einhverjum skringilegum bókmenntum og það mundi hafa sömu áhrif á meiri hlutann. Honum er alveg sama hvað við höfum að segja. Hér búum við við eitthvað sem ég hef óbeit á, það er hið algera meirihlutaræði.

Ég verð að segja fyrrverandi ríkisstjórn það til hróss að það var reynt að koma til móts við minni hlutann í sumum málum. Það var reynt, það var ekki gert alltaf, en maður upplifði það að maður gæti haft smá áhrif á framgang mála. Ég vonaðist til þess að þeir þingmenn sem voru með mér þá í stjórnarandstöðu mundu haga sér öðruvísi þegar þeir kæmu til valda. Þeir mundu þá laga það sem þeir kvörtuðu undan. Nei. Þeir eru bara enn verri. Var í raun og veru allt það sem þingmenn og forustumenn fyrrverandi stjórnarandstöðu sögðu bara innantómt hjal?

Ég vil að því sé haldið til haga að það sem ég segi hér er eitthvað sem ég meina, ég vil að þingið sé vettvangur til þess að móta mikilvæg stefnumál sem allir flokkar geta komið að til að finna lausn á. Ef við finnum ekki lausn þurfum við að taka smá hlé. Við þurfum að leyfa málum að þroskast. Við þurfum að fá fleiri sérfræðinga til að gefa okkur góða yfirsýn yfir þau mál sem við erum að taka stórar ákvarðanir um. Því er ekki fyrir að fara hér. Kannski verður það aldrei þannig. Kannski sætta þingmenn sig bara við að vera stimpilpúðar fyrir framkvæmdarvaldið meðan það ætti að vera þannig að framkvæmdarvaldið framkvæmi vilja Alþingis. Ekkert fer meira í taugarnar á mér en þegar sagt er að Alþingi hafi samþykkt eitthvað þegar ég er á móti því. Ég þoli það ekki. Alþingi hefur ekkert vald. Þingmenn meiri hlutans hverju sinni gefa eftir og skilja ekki ábyrgð sína í að viðhalda þroskuðu lýðræði þar sem við finnum leiðir til að vinna þverpólitískt að málefnum. Mér finnst það ömurlegt. Ég upplifi stundum að lýðræðið sem við búum við sé einhvers konar einræði margra ráðherrahausa. Svo dönsum við þingið eftir. Er ekki mál að linni? Mér finnst ótrúlegt að við séum komin á þann stað að við séum í verri málum en fyrir hrun. Verri málum þegar kemur að því að þingmenn gefi frá sér vald sitt sýknt og heilagt. Við erum löggjafarvaldið. Við erum ekki löggjafarstimpilpúðinn. Nú skora ég á þingmenn meiri hlutans að hætta að haga sér eins og stimpilpúðar.