145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara segja að ég er fyrir mitt leyti tilbúinn til þess að skoða allar tillögur sem lúta að því að reyna að brúa bil á milli manna í því máli sem hér er, sitja alla þá fundi sem skotið er á til að kanna hvort hægt sé að byggja brýr á milli ólíkra sjónarmiða í þessu eða leita einhvers konar málamiðlana. Ég tel að það sé skylda okkar. Menn telja stundum að þeir séu minni menn ef þeir slá eitthvað af þeim málum sem þeir koma með inn á þingið eftir að þeir verða ráðherra en það er alger misskilningur. Það er ekki einungis dæmið um hv. þm. Höskuld Þórhallsson sem leiddi hér náttúruverndarlög til farsælla lykta, bæði honum og ekki síður hæstv. ráðherra Sigrúnu Magnúsdóttur til álits og vegsauka, heldur höfum við líka dæmi um hv. þm. Jón Gunnarsson sem sannarlega liggur ekki á skoðun sinni um ýmis efni og er ófeiminn við að takast á við menn um málefni en tók kerfisáætlun í miðri 2. umr. inn í nefnd til sín og fann á henni farsæla lausn sem sömuleiðis varð bæði honum og ráðherranum sem upphaflega flutti málið til álits og vegsauka. Þau urðu ekki minni menn fyrir það að taka tillit til annarra sjónarmiða. Þau uxu af því.