145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Manni er ekki hlátur í huga á þessari stundu þegar verið er að afgreiða þetta mál út úr 2. umr. Hæstv. ráðherra talar um litla stofnun og litla skrifstofu inni í ráðuneytinu, að þetta verði allt svo lítið og krúttlegt í framtíðinni, en mér finnst metnaður ráðherra og ríkisstjórnarinnar fyrir þessum málaflokki vera mjög lítill. Það er okkur til skammar. Við erum vissulega lítil þjóð en í þessum málaflokki getum við gert svo miklu betur, og með því að sýna því góða starfi sem hefur farið fram hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands til fjölda ára þá lítilsvirðingu að leggja stofnunina niður og rigga upp inni í ráðuneyti einhverju sem enginn veit hverju á eftir að skila verður rík þjóð sér til skammar, þjóð sem er að komast upp úr miklum efnahagsvanda og hefur borð fyrir báru til að gera miklu betur.