145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[16:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég mundi telja að það gæti alveg verið skynsamlegt. Staðan er sú að mörg sveitarfélög eru í miklum vanda. Þetta er að mörgu leyti orðið sjálfskaparvíti. Þau eru kannski ekki vel stödd fjárhagslega en vilja reyna að draga til sín fólk og það er kannski eitthvað í pípunum. Ég þekki til dæmis til á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem laxeldi hefur verið að blómstra. Sveitarfélög leggja ekki í að fara út í fjárfestingar, vegna þess að það fari fram úr fjármálareglunni, en vita að einstaklingar koma ekki til með að gera það fyrr en meira öryggi er orðið í atvinnumálum á þessum svæðum. Þess vegna þurfa opinberir aðilar að koma til í þeim efnum og það er vitað að það muni skila sér. Þetta tel ég vera eitt af því sem eigi að flokkast undir góða skuldsetningu. Það getur verið slæmur hagvöxtur og góður hagvöxtur; hagvöxtur er ekki bara hagvöxtur, hann getur verið á jákvæðum nótum, vegna þess sem liggur að baki honum, eða komið til vegna allt of mikillar einkaneyslu. Ég tel því að það sé mjög skynsamlegt að horfa til þess að hægt sé að horfa fram hjá slíku.

Ég kem kannski betur að því í seinna andsvari en varðandi þessar tvær greinar sem eiga að vera, finnst mér, bragarbót til að reyna að mæta landsbyggðarsjónarmiðum í þessum efnum — ég veit ekki hvort ég megi segja dúsa — þá gef ég orðið lítið fyrir allar þær skýrslur sem hafa komið út um vanda landsbyggðarinnar.