145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[16:28]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal ekki segja til um þessar tvær greinar. Ég skil alveg ótta hv. þingmanns en það er þó þannig að með því að fá slíka greiningu og draga slíkt fram þá skapast þrýstingur ef niðurstaðan er óhagstæð. En hvort það leiðir til breytinga vitum við ekki eins og dæmin sanna.

En varðandi húsnæðismál í sveitarfélögum þá er ég algerlega sammála hv. þingmanni. Það verður sjálfskaparvíti ef ekki er hægt að auka við húsnæði á svæðinu, og þá fyrir hönd sveitarfélagsins, af því að ekki má auka skuldsetningu sveitarfélagsins frekar en það hamlar líka mikið vexti í sveitarfélaginu.

Það var hluti af húsnæðistillögum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að komið yrði á sérstökum húsnæðisáætlunum þannig að sveitarfélögin legðu fram áætlanir um þörf fyrir uppbyggingu húsnæðis. Ég held að það sé brýnt að koma slíku á. Það hefði ekki síður þurft fyrir hrun þegar sveitarfélögin í kringum Reykjavík byggðu langt úr hófi fram án þess að nokkur eftirspurn væri eftir staðsetningunni eða þeirri tegund húsnæðis sem verið var að byggja. Þannig að þetta er á báða bóga, bæði til að tryggja að nægilegt húsnæði verði byggt og til að koma í veg fyrir offramleiðslu á húsnæði á röngum stöðum. En það þarf þá að vera þannig að ef sveitarfélögin fá heimild til að fara fram hjá skuldaþakinu þá sé það á góðum rökum reist og á góðri greiningu þannig að ekki sé verið að ógna fjárhag sveitarfélagsins til lengri tíma.

En ég velti því líka fyrir mér og spyr hv. þingmann: Er ekki ástæða til að hefja enn eina tilraunina til að fækka sveitarfélögum og stækka þau?