145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[16:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta með húsnæðismálin er auðvitað mikill vandi. Það var mikill vandi sem fylgdi þessari ofþenslu hér á höfuðborgarsvæðinu sem aldrei náði út á land en landsmenn allir guldu fyrir. Það voru engin bönd sem náðu utan um það, það var bara byggt og byggt út í hið óendanlega þó að þörfin væri ekki fyrir hendi nema flestir landsmenn hefðu flust hingað á höfuðborgarsvæðið.

Ég er fylgjandi því að við reynum í okkar efnahagsstjórn að greiða hratt niður vexti því að vextir kosta okkur sem samfélag mikið og við getum nýtt þá peninga miklu betur. Mér hefur oft orðið hugsað til þess sem var á árum áður. Fjármálarammar sem þessir — hvernig hefði ríkisvaldið sem hefur stjórnað undanfarin 20 ár, hvernig hefðu fjármál þeirrar ríkisstjórnar, hvernig þau höguðu sínum opinberu fjármálum, fallið inn í þessa ramma. Það væri alveg vert að skoða það og sýna okkur hvernig þetta módel hefði passað við ríkisstjórnir framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, með aðkomu stöku krata inn á milli. Það væri mjög fróðlegt að sjá það.

En ég er á því að það sé margt verra en það að skuldsetja sig fyrir góð verkefni. Þá hugsa ég líka um alla þá uppbyggingu sem fyrri kynslóðir komu á fót fyrir okkur sem búum í þessu landi í dag, það voru góðar skuldsetningar. Margt sem var gert á þeim tíma var gert þegar þurfti að gera það. Við ætluðum að rífa okkur upp í efnahagsmálum og það var gert. Okkar kynslóð nýtur margra þeirra verka sem fyrri kynslóðir unnu fyrir okkar hönd.