145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að ráðherrann talaði með bros á vör til mín um hin frumvörpin sem ég spurði eftir. Þau munu koma? Já, við skulum vona það. En nú eru liðin tvö og hálft ár af ráðherraferli hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. (Gripið fram í.) Þau eru ekki komin fram enn þá. Hér er komið eitt af sjö. Það er ekki eins og sungið verður á næstunni, jólasveinar einn og átta, heldur er þetta húsnæðisfrumvarp eitt af sjö. En svo leiðrétti ráðherrann mig og sagði fimm frumvörp á þingmálaskrá hæstv. ráðherra. Þökk sé miklum og góðum fjarskiptum í landinu og þar á meðal í snjallsímum og spjaldtölvum og öðru því sem við þingmenn höfum til að styðjast við hef ég fengið upplýsingar um að á þingmálaskrá hæstv. ráðherra séu sjö frumvörp en ekki fimm eins og hún segir. Nú held ég að hæstv. ráðherra verði að fara að telja og ná sér í þingmálaskrána. Við verðum að komast að niðurstöðu um hvort eigi eftir að koma fjögur eða sex frumvörp. (Félmrh.: Ég sagði á haustþingi. Hérna, fyrir jól.)

(Forseti (SJS): Ekki samtal.)

Ókei, það kann að vera skýringin. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í stuttu andsvari áðan er það þetta frumvarp sem gerir ekki ráð fyrir neinum útgjöldum ríkissjóðs, sem kemur fyrst af þessum fimm á haustþingi eða sjö á þingmálaskrá, ef við höfum komist að niðurstöðu um það. Þetta frumvarp kemur fram og er ekki með nein útgjöld fyrir ríkissjóð. Þetta frumvarp er vafalaust, eins og ég sagði áðan og hæstv. ráðherra talar um, til mikilla bóta hvað varðar þær lagfæringar sem verið er að gera á þessum lögum gagnvart húsnæðissamvinnufélögum, sem eru með mikil áform og ætla sér að fara að byggja. Hér eiga að vera miklar réttarbætur eða við skulum segja húsnæðisöryggisbætur til fólks sem kýs að vera á leigumarkaði og verður að vera á leigumarkaði til að byrja með. Ég held að það sé allt saman til góða. En ég segi aftur að það hefur verið gagnrýnt og það er eiginlega alveg óþolandi að maður þurfi að vera að gagnrýna þetta, vegna þess að um þetta mál eigum við að reyna að ná sem mestri samstöðu. Þá er ég að gagnrýna hvað það tekur ofboðslega langan tíma að koma með þessi frumvörp. Nú kemur þetta frumvarp rétt fyrir jól og mun örugglega ekki klárast fyrir jól og gæti farið fram að þinglokum í vor, ég veit það ekki, en ég vona að hægt sé að vinna þetta hraðar og samstaða sé um það og ekki sé mikið sem þurfi að breyta í frumvarpinu. Nógan tíma hefur það nú tekið. Eins og ég segi og kemur fram í athugasemdum eru lagðar til breytingar á lögum nr. 66/2003, um húsnæðissamvinnufélög, með síðari breytingum, og það allt saman og vitnað í að þetta hafi verið í þingsályktun nr. 1/142, um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sem samþykkt var á Alþingi 28. júní 2013. Í dag er 27. nóvember 2015. Við erum ekki enn búin að koma þessu í gegn. Það er það sem ég gagnrýni. En ég vil líka segja að ég vil veita hæstv. ráðherra húsnæðismála allan stuðning og styrk við að ná þessu í gegnum ríkisstjórn. Hin frumvörpin sem eiga eftir að koma munu ekki hafa þá skrift frá fjármálaskrifstofunni að þau leiði ekki til neinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Eins og stofnframlögin sem hæstv. ráðherra var að tala um áðan.

Þá kem ég að hinum mjög svo metnaðarfullu og stóru áformum á vegum Reykjavíkurborgar og ýmissa annarra sveitarfélaga, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, um að ráðast í stórátak í byggingu á leiguíbúðum þar sem farið verður að byggja það sem okkur vantar sem mest inn á þennan markað, litlar íbúðir, sem þá verða auðvitað ódýrari, bæði í byggingu og til kaupa, og eins minni íbúðir til leigu. Ungt fólk sem er að byrja búskap og er ekki með börn á heimilinu getur alveg látið sér nægja minni íbúðir og þar af leiðandi lægri kostnað, eins og ég gat um áðan. Það er sannarlega mikill munur fyrir fólk sem getur gert það, þó svo ég segi að við verðum alltaf að hafa leiguhúsnæði líka. Nýlega heyrði ég ágætisdæmi af ungu fólki sem var að leigja fyrir 110 þús. kr. á mánuði. Það fólk hafði sýnt mikla fyrirhyggju á uppvaxtarárum sínum og notað peninga, allt að því skírnargjafir, fylgdi með, fermingargjafir og það sem hafði verið önglað saman í vinnu og ekki eytt, og lagt inn á reikning. Síðan gat þetta fólk keypt íbúð, 65 m² íbúð, alveg passleg og fín stærð, fyrir 20 millj. kr. á sínum tíma. Útborgun var 4 millj. kr., sem var ágætt og þær voru til, þau fengu líka aðstoð foreldra að einhverju leyti. Eftir stóð þá skuld upp á 16–17 milljónir. Afborgun af þessum 16 milljónum í dag er 85–90 þús. kr. En það sem er ánægjulegt er að þrátt fyrir skerðingar á vaxtabótum eru að koma 600–650 þús. kr. í vaxtabætur þannig að nettógreiðsla af þessu eigin húsnæði er um 350 þúsund á ári eða um 30 þús. kr. á mánuði. Og núna hætti ég þessum talnaleik með því að enda á því að segja að þarna er fólk í öruggu húsnæði, það er engin hætta á því að því verði sagt upp húsnæði. Það hefur fastan stað. Heimilið er besta og öruggasta vígi hvers manns. Í stað þess að vera á leigumarkaði með 140 þús. kr. og geta verið sagt upp með tryggingum o.s.frv. Þarna kem ég að því sem ég hef alltaf talað fyrir og ég skal alveg segja að ég er skotinn í þingsályktunartillögu sem nokkrir framsóknarmenn settu fram ekki alls fyrir löngu, en vek athygli á að er einungis þingsályktunartillaga, að koma til móts við ungt fólk þegar kemur að útborguninni. Alveg eins og við eigum að taka tillögu sem við samfylkingarmenn lögðum fram í bráðaaðgerðum sem við kölluðum fyrstu aðgerðir í húsnæðismálum, að búa til þá leið. Ég skil ekki enn þá hvað það tekur langan tíma. Að fólk geti leigt út eina íbúð án þess að borga af því skatta. Eða eins og hæstv. ráðherra sagði, að eldra fólk geti kannski leigt frá sér húsnæði án þess að það skerði laun þess frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðunum og öðrum. Þetta er mjög skjótvirk leið til að ná árangri. Alveg eins og ég vona að þetta frumvarp verði til þess að stórfjölga byggingum sem verði til leigu án þess að vera með svakalegar ávöxtunarkröfur, eins og við sjáum almennt á markaði.

Ég kem aftur að stórum og miklum og metnaðarfullum áformum Reykjavíkurborgar til að vinna á þessum íbúðavanda, húsnæðisskorti, svimandi háu leiguverði og síhækkandi. Reykjavíkurborg bíður eftir þessu stofnkostnaðarfrumvarpi til þess að geta haldið áfram á fullu. Það sem ég hef séð frá borgarstjóra, sýnt á fundum, er ýmis skipulagsvinna, breytingar á skipulagi og ýmislegt fleira sem gert er meðal annars til að byggja þessar litlu og meðalstóru íbúðir og þeirri vinnu er þá lokið. Nú stendur þess vegna á hæstv. ríkisstjórn, hæstv. ráðherra húsnæðismála.

(Forseti (SJS): Vill ræðumaður gera aðeins hlé á máli sínu. Forseti vill biðja um þögn í hliðarsal og að annaðhvort sitji hæstv. ráðherra í þingsalnum og hlýði á umræður eða sé ekki á öðrum fundi með aðstoðarmönnum sínum eða öðrum í hliðarsal. Það er ekki við hæfi að jafn mikið ónæði sé inni í þingsal og var hér áðan.)

Takk fyrir það, hæstv. forseti, og það gerir að verkum að ég þarf ekki að brýna raust mína eins mikið til þess að ná eyrum hæstv. ráðherra. En ég var að tala um þessi metnaðarfullu, góðu áform hjá Reykjavíkurborg og mundi gjarnan vilja heyra í hæstv. ráðherra um það. Svo er það sú óþolinmæði sem menn geta heyrt í ræðu minni hér um hin frumvörpin sem boðuð hafa verið og allir eru að bíða eftir. Ég var að spyrja hæstv. ráðherra út í þau atriði vegna þess að Reykjavíkurborg er tilbúin með lóðir, deiliskipulag og hvað þetta allt saman heitir til að fara af stað en segist vera að bíða eftir húsnæðisfrumvörpum ríkisstjórnarinnar sem boðuð hafa verið, sama hvort þau eru fimm eða sjö.

Ég tók dæmi áðan af ungu fólki sem var svo lánsamt að eiga pening fyrir útborgun og komast þannig í húsnæðisskjól og er þar í tryggu húsnæði, en það gildir ekki um alla. Það eru nefnilega mjög margir sem eiga ekki þessi 20%. Það er stærsta vandamálið, að mínu mati, fyrir ungt fólk. Plús það að það eru allt of fáar litlar ódýrar íbúðir, 50–60 m², á markaðnum fyrir ungt fólk sem er kannski aðeins tvö til að byrja með, eins og oftast er. Að fólk geti svo gengið út úr því húsnæði og fengið kannski stærra þegar börn fæðast og fjölgar í fjölskyldunni o.s.frv. Þetta er stærsta vandamálið í dag. Þetta gerir að verkum að svo margir eru á leigumarkaði og svo margir að bítast um hverja íbúð að verðið fer upp úr öllu valdi. Það er eðli markaðarins. Ég hef fylgst með auglýsingum um leigu á íbúð sem var ekkert mjög stór, þar sem komu 120 umsóknir. Sú þriggja herbergja íbúð, kannski er eitt og hálft ár síðan, fór á 220 þúsund á þessum uppboðsmarkaði. Þetta er nánast eins og spottmarkaður.

Þetta vildi ég segja um þetta litla frumvarp hér sem þó getur breytt miklu og mér sýnist vera jákvætt. Vonandi gengur það fljótt og vel fyrir sig en ég spyr enn og aftur: Á hverju stendur með hin frumvörpin? Ég segi að lokum: Ég held að við getum sameinast um þessi atriði. Ég óttast að fyrirstaðan sé í ríkisstjórn gagnvart fjárhagslegum útgjöldum, að þess vegna komi þau ekki inn, þau séu strand hjá ráðherra. Ef grunur minn á við rök að styðjast er það venjuleg leið hjá viðkomandi ráðherra sem nær ekki máli sínu í gegn að láta einhverja starfshópa vinna aðeins lengur og fara betur í gegnum eitthvað. Ég vona að svo sé ekki. En ég kalla enn eftir því frá hæstv. ráðherra að fá skýr skilaboð um hvenær hin sex frumvörpin koma fram.