145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

349. mál
[16:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Gúmmíkurl úr dekkjum hefur verið notað sem fyllingarefni á leik- og íþróttasvæðum, aðallega á gervigrasvöllum sem nýttir eru til knattspyrnuiðkunar. Í dekkjagúmmíi eru heilsuspillandi eiturefni, á því er enginn vafi, en við getum ekkert fullyrt þrátt fyrir rannsóknir um hin mögulegu heilsuspillandi áhrif eða önnur langtímaáhrif á náttúrulegt nærlendi þessara valla. Árið 2010 sendi Læknafélag Íslands frá sér ályktun og skoraði á stjórnvöld að banna notkun á kurlinu. Þessari ályktun fylgdi greinargerð sem staðfesti að kurlið innihéldi stórhættuleg efni sem gætu meðal annars valdið krabbameini. Auk þess safnast fenól fyrir í náttúrunni með ófyrirséðum langtímaáhrifum á náttúruna og sink sem er í vissum tilvikum eitrað fyrir lífverur og blý sem getur mögulega, safnist það upp í líkamanum, valdið ófrjósemi og skemmdum á taugakerfi. Jafnframt er bent á að börn eru sérstaklega næm fyrir áhrifum blýs. Þá hefur umboðsmaður barna lýst yfir áhyggjum og foreldrasamtökin Heimili og skóli hafa sömuleiðis ályktað í þá veru.

Auk gervigrasvalla íþróttafélaganna hefur efninu verið dreift á velli í nánd við skólalóðir, en sparkvallaátak Knattspyrnusambands Íslands frá 2004 skilaði 111 slíkum völlum víða um land. Knattspyrnusambandið hefur nú í samræmi við áætlun breytt reglugerð um knattspyrnuleikvanga þar sem kveðið er á um að kurl í gervigrasi skuli vera af viðurkenndri gerð, ljóst að lit og án efna sem teljast skaðleg heilsu eða mengandi. Vellirnir yrðu hins vegar í eigu og umsjá sveitarfélaganna og viðhaldið er á þeirra ábyrgð. Það verður að segjast að fjölmörg sveitarfélög hafa brugðist jákvætt við því að skipta þessu efni út. En ljóst er að verkefnið er á borði fjölmargra aðila, sveitarfélaga, íþróttafélaga og skóla, og þess vegna er mikilvægt að skoða hver þáttur löggjafans í þessu tilliti er.

Hér er undir að girða fyrir notkun þessara efna. Ég vil því beina eftirtöldum spurningum til hæstv. auðlinda- og umhverfisráðherra:

1. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við þessari umræðu um notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum?

2. Hvaða reglur gilda um notkun þessara efna?

3. Hvernig er eftirliti Umhverfisstofnunar með notkun efnanna háttað?

4. Mun ráðherra beina því til Umhverfisstofnunar að yfirfara þessar reglur?

5. Mun ráðherra beina því til Umhverfisstofnunar að gefa út (Forseti hringir.) tilmæli eins og Norðmenn og Svíar hafa þegar gert?

6. Mun ráðherra ganga alla leið og beita sér fyrir því að notkun efnisins verði bönnuð?