145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

lækkun útvarpsgjalds.

[10:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Frumvarpið er komið fram og er á vettvangi ríkisstjórnarinnar, sagði hæstv. ráðherra. Allir í þessum sal vita að ef frumvarpið er á vettvangi ríkisstjórnarinnar hefur umræðu um það verið frestað af einhverjum sökum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji einhverja ástæðu til að ætla að þetta frumvarp muni ekki koma hér fram. Eigum við von á því að það verði afgreitt út úr ríkisstjórn á morgun, á næsta reglulega ríkisstjórnarfundi, þannig að það komi í þingið í tæka tíð til að hægt verði að ljúka því fyrir jólahlé?

Ég ítreka svo þá fyrirspurn mína til hæstv. ráðherra, ef hann hefur tök á að svara, hvað það mundi þýða í rekstri Ríkisútvarpsins ef af lækkuninni yrði. Hvað þýðir það fyrir Ríkisútvarpið ef frumvarp hæstv. ráðherra nær ekki framgangi? Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa yfirsýn yfir það frá stofnuninni og mjög mikilvægt að hv. þingmenn átti sig á því hvað það þýðir ef þetta frumvarp kemur ekki inn í þingið og fær ekki afgreiðslu. Getur hæstv. ráðherra upplýst okkur um það?