145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verulega gaman af þessari umræðu. Ég vil þó taka fram í upphafi að arður er alls ekki það sama og stofnfjárframlag sem gert var ráð fyrir í þessari fjárfestingaráætlun. Svo voru hér kosningar 2013 og ný stjórn var kosin til valda svo eftirminnilega og vinstri flokkarnir voru kosnir frá völdum eins og allir vita.

Það er líka mikill tvískinnungur að tala um að leggja eigi sem hæst veiðileyfagjald á útgerðina, eins og var svo sannarlega gert á síðasta kjörtímabili. Vinstri stjórnin stóð vel að því, ef svo má að orði komast. Það er þetta samspil, sem mér finnst stundum sósíaldemókratar og þeir sem fylgja stefnu Vinstri grænna ekki alveg átta sig á, að þegar gjaldtakan er sem hæst, eins og veiðileyfagjald, er minna eftir í fyrirtækinu til að borga tekjuskatt. Auðvitað var það þannig þegar við fórum að skoða þessi mál þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Þá var veiðileyfagjaldið pínt svo upp úr öllu valdi að það kom þannig út að fyrirtækin greiddu ekki skatt til ríkissjóðs.

Svona lítur þessi jafna út, en það er flottara hjá vinstri mönnum að djöflast út í höfuðatvinnugrein okkar. Það er þeirra list og það kunna þeir svo sannarlega. Því var svo sannarlega beitt hér á síðasta kjörtímabili, sjávarútvegurinn talaður niður í ræðu og riti hvenær sem tími gafst, að vísu er þeim málflutningi haldið áfram myndarlega nú eins og við vitum.

Landsmenn vita betur, að sjávarútvegur er undirstaða gjaldeyristekna þjóðarinnar og (Forseti hringir.) sjávarútvegurinn skilar miklu til samfélagsins í formi (Forseti hringir.) tekjuskatts af fyrirtækjunum og gleymið heldur ekki skatti af (Forseti hringir.) arðinum sem verið er að greiða út.