145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni sem hún rakti með nokkurri undrun að ekki hafi orðið neitt úr neinum öðrum hugmyndum í kjölfar þess að náttúrupassaævintýrið rann út í sandinn. Það var reyndar alveg ljóst, það kom hingað andvana fætt inn í þing vegna þess að það hafði engan stuðning, ekki einu sinni í stjórnarliðinu og það hefði verið hægt með einfaldri handaupplyftingu í þingflokkum stjórnarflokkanna að komast að því. En ég skynjaði þá, t.d. á hv. formanni atvinnuveganefndar, Jóni Gunnarssyni, eindreginn vilja til að finna einmitt eins og hv. þingmaður nefndi blandaða leið sem gæti tryggt að með sértækri gjaldtöku væri hægt að búa til peninga upp á um milljarð á ári og hægt væri að gera það í gegnum blandaða leið með tilteknum bílastæðagjöldum á allra vinsælustu stöðunum, með lendingargjöldum, með gistináttagjaldi og síðan mögulega af einhverri skiptingu þessara tekna milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég undrast þess vegna þá áráttu ríkisstjórnarinnar til pilsfaldakapítalisma að geta aldrei látið neina atvinnugrein borga raunkostnað af þeirri þjónustu sem hún fær. Það er eiginlega algjörlega með ólíkindum að hér séum við að upplifa atvinnugrein með yfir 30% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar sem leggur ekki raunkostnað til vegna uppbyggingar innviða sem eru henni lífsnauðsynlegir.

Kannski er það bara verkefni sem ætti að taka upp í atvinnuveganefnd, fyrst ríkisstjórnin hefur ekki frumkvæði að því, að þingmenn og nefndarmenn taki sig saman um að þróa svona kerfi og stilla því upp, því að það er mjög slæmt að vera að fara inn í uppgangsár eftir uppgangsár án þess að gjaldtökumöguleikar séu nýttir (Forseti hringir.) til fulls og þó svo að peningunum væri ekki varið til framkvæmda á því ári lægju þeir þó í sjóði og væri hægt að grípa til þeirra á mögrum árum í framtíðinni.