145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmanni varð tíðrætt um bankamál og bar ýmislegt á góma í þeim efnum. Mig langar aðeins að spyrja hann út í Landsbankann, sem er vissulega núna í eigu þjóðarinnar. Það var til umræðu áðan hjá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni að bankinn yrði gerður að samfélagsbanka og ekki yrði seldur hlutur upp á 30%, sem er heimild fyrir í fjárlögum.

Mig langar aðeins að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því hvaða hlutverk slíkur banki gæti haft ef niðurstaðan yrði að hann yrði áfram í eigu þjóðarinnar og þjóðin fengi arð af bankanum. Á þessu ári eru það um 26 milljarðar sem skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli fyrir ríkissjóð.

Hvaða skyldur telur hv. þingmaður að slíkur banki mundi hafa ef hann yrði samfélagsbanki og þá gagnvart allri þjóðinni? Telur hv. þingmaður að eingöngu hámarksarðsemi eigi að vera þar leiðarljós eða að hann hefði einhverjar samfélagsskyldur gagnvart þjóð í dreifbýlu landi?

Nú hefur viðkomandi banki verið að skella í lás í fjölda útibúa vítt og breitt um landið. Hann virðist ekkert vera feiminn við það og svo talar bankastjóri Landsbankans um að hér sé blússandi góðæri. Hann virðist ekki hafa neina samfélagsþanka gagnvart þjóðinni og því að það sé mjög mikill ójöfnuður í þjóðfélaginu og líka á milli landshluta og virðist ekki hafa neinar skyldur til að þjóna öllu landinu.