145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi það síðasta sem hv. þingmaður fjallaði um, þ.e. kjör eldri borgara og öryrkja. Það hefur angrað mig aðeins í þeirri umræðu hvernig við dettum í þann pytt að stjórnarflokkarnir koma hingað og segja: Þið voruð svo miklu verri en við á síðasta kjörtímabili, þið skertuð kjör eldri borgara og öryrkja. Slengja því svona fram. En svo þegar maður skoðar tölurnar er það ekki alls kostar rétt. Á árunum 2009 og 2010 urðu hækkanir, þótt litlar væru, á grunnlaunum þessara hópa frá ríkinu. Síðan aftur 2011 kom inn töluverð hækkun eða tæplega 20 þús. kr. á grunnlífeyri á miðju ári vegna launahækkana. Síðan hélt vísitöluhækkunin áfram í framhaldi af því.

Það er hins vegar rétt hjá þeim að ákveðnar skerðingar voru settar inn, sem voru tímabundnar, á þá sem voru með hæstu lífeyristekjurnar til viðbótar við aðrar tekjur. Þær gengu til baka. Þá erum við að tala um að þegar fólk var komið upp í 300 þús. kr. tekjur úr lífeyrissjóði byrjuðu skerðingar, svo því sé haldið til haga. Nú hefur það gengið til baka. Mér finnst svo mikilvægt að í staðinn fyrir að standa hér og karpa um þetta, einhverjar lágar prósentur og fortíðina sem samt er lágmark að menn fari rétt með, eigum við að horfa á það að við erum með þúsundir Íslendinga sem lifa á 170 þús. kr., 190 þús., 210 þús., 217 þús. kr. og tölum í kringum þær upphæðir. Mér finnst við þurfa að fara að horfa á þessar upphæðir og velta fyrir okkur: (Forseti hringir.) Getur fólk raunverulega lifað á þessu? Og ef svarið er nei, að reyna þá að taka höndum þverpólitískt saman um að breyta þessu í einhverjum sómasamlegum skrefum.