145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:32]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara svona vel yfir málin og sérstaklega umfjöllun hv. þingmanns um opnari stjórnsýslu. Mér þykir mjög áhugavert að það hafi verið gert á síðasta kjörtímabili að koma ákveðnum hrágögnum út. Mér fannst líka mjög áhugavert að heyra að það hafi ekki verið neitt sérstaklega erfitt eða kostnaðarsamt.

Ég veit að það eru mörg lönd sem eru farin að gera þetta, bæði í ákveðnum samstarfsverkefnum eins og Open Government Partnership og síðan Open Budget Partnership, sem er nátengt. Það er allt saman eitthvað sem Ísland gæti hreinlega gengið inn í og byrjað að vinna samkvæmt ákveðnu plani.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður viti hvernig á því stendur að við tökum ekki þátt í svona samstarfsverkefni. Er það bara af einhverjum pólitískum ástæðum eða vitum við hreinlega ekki um þetta?

Svo varðandi annað sem hv. þingmaður minntist á í ræðu sinni, þ.e. unga fólkið. Nú er það stefna hæstv. ríkisstjórnar að vera með séreignarstefnu í húsnæðismálum. Ég sé ekki alveg hvernig manneskja sem er 25 ára gömul og er að reyna að festa kaup á íbúð eigi að geta haft efni á því, sérstaklega ef sú manneskja er búin að vera í námi, enda eru námslán einungis upp á 1,5 millj. kr. á ári og þar að auki má nemandi einungis vinna sér inn 1 millj. kr. yfir allt árið.

Ég spyr. Hvaðan á þessi peningur að koma? Hvernig á ungt fólk í dag að ná að safna sér fyrir sinni fyrstu íbúð ef það er stefna stjórnvalda að við eigum að eiga íbúð? Hvar á ungt fólk að búa? Það er spurning sem ég er búin að vera að velta fyrir mér. Þetta er ákveðið misrétti. Það er ekki vel gerlegt að lifa af 2,5 millj. kr. á ári, ef ég á að segja eins og er.