145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Hún er mjög umhugsunarverð. Þegar um er að ræða veitingu atvinnuleyfa til fólks utan EES eru leyfin einungis veitt einstaklingnum sjálfum, ekki fjölskyldu, og enginn almennur réttur er fyrir viðkomandi að koma með fjölskyldu til landsins.

Það er alveg rétt sem Útlendingastofnun segir og til dæmis staðfestu norsk yfirvöld í gær í útvarpsviðtalinu í Speglinum að Albanir almennt teljast ekki í hættu. Þar eru aðstæður ekki með þeim hætti að þeir eigi almennt rétt til að teljast flóttamenn og rétt til hælis af þeim sökum. Albanía er umsóknarland að Evrópusambandinu og hefur verið viðurkennt sem slíkt og til þess þarf tiltekna trausta innviði.

En síðan má horfa á málið frá öðru sjónarhorni því að um leið og Albanía er orðin aðili að Evrópusambandinu hefur þetta fólk fullt frelsi til að koma hingað, finna sér vinnu og koma hér með fjölskyldu sína.

Ég held að við þurfum þarna að finna einhvern milliveg. Ég held að okkur hafi ekki tekist að búa til farveg fyrir fólk sem vill koma hér og vinna með okkur og leggja sitt af mörkum fyrir íslenskt samfélag. Það er eðlilegt að það sé háð einhverjum skilmálum eða skilyrðum, en það á að vera mögulegt með einhverjum hætti. Ég deili ekki því sjónarmiði að ef menn ákveða í einhverju tilviki á grundvelli mannúðarsjónarmiða einhverja afgreiðslu hafi það í för með sér stórfellt fordæmisgildi.

Með sömu rökum má segja að Svíar séu skuldbundnir til að taka við öllum sem þeir sögðust ætla að taka við fyrir þremur, fjórum vikum síðan. Þeir eru búnir að breyta reglunum. Auðvitað er alltaf hægt að ákveða að grípa til harðari eða rýmri reglna um stund. Á Íslandi eru þær aðstæður núna að mjög fáir flóttamenn hafa komið hér á þessu ári. Það er því alveg ástæða til þess að slaka á akkúrat núna, en svo getur vel verið að það komi mikill (Forseti hringir.) straumur á næsta ári. Við ætlum alla vega að taka á móti sýrlenskum flóttamönnum þá. (Forseti hringir.) Það kann þá að vera ástæða til að herða aftur á og það á líka að vera mögulegt að gera það.