145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það þurfi að fara saman. Ef við viljum efla innlenda menningarframleiðslu tel ég að fara þurfi saman styrkir til innlendrar menningarframleiðslu í gegnum Kvikmyndasjóð og sjónvarpssjóð, við eigum ágætisstrúktúr eða skipulag fyrir útdeilingu slíkra styrkja. En ég held að við komumst ekki hjá því að hafa stofnun, og vitna ég til hljóðvarpsins sem ég held að sé hvergi nærri á undanhaldi ef við horfum til dæmis til hlutverks Rásar 1 og menningarhlutverks hennar, svo dæmi sé tekið. Rás 2 hefur líka gegnt mjög mikilvægu menningarhlutverki þótt mér finnist það stundum hunsað í umræðunni, sem snýst fyrst og fremst um íslenska tónlist og hefur gert þar alveg gríðarlegt gagn fyrir hana. Svo held ég að þegar kemur að hinu hlutverkinu sem við ræddum hér, sem er þetta lýðræðis- og fjölmiðlunarhlutverk, komumst við ekki hjá því að hafa stofnun. En þetta þarf að fara saman, þ.e. styrkir til framleiðslu á innlendu menningarefni. Ég hef talað fyrir því að þeir verði auknir sem hluti af starfi Ríkisútvarpsins.