145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar við 3. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015 að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum hér í dag þegar fram kom að ekki væri breytingartillaga frá meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Ég hafði satt að segja leyft mér að vera svo bjartsýn að vona að það kæmi tillaga frá meiri hluta nefndarinnar um að endurskoða málin og bæta við peningum svo að hægt væri að veita öldruðum og öryrkjum kjarabætur afturvirkt fyrir árið 2015.

Ég ætla einmitt að nota ræðutímann minn við 3. umr. til að ræða kjör aldraðra og öryrkja. Meiri hluti Alþingis hafnaði tillögu minni hlutans, sem lögð var fram við 2. umr., um að tryggja að öryrkjar og aldraðir fengju sambærilegar launahækkanir frá 1. maí sl. og samið hafði verið um við launþega á hinum almenna vinnumarkaði.

Í nefndaráliti minni hluta hv. fjárlaganefndar kemur fram að í ljós hafi komið að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi í útreikningum sínum 3% launahækkun sem kom í byrjun árs 2015, en sú hækkun tengist ekki þeim kjarasamningum sem hafa verið gerðir á hinum almenna vinnumarkaði, eins og segir í nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Því vantar þessa hækkun inn í bótaflokka aldraðra og öryrkja. Einnig hefur komið í ljós að við útreikningana sleppir fjármála- og efnahagsráðuneytið launaskriði sem hefur orðið og lækkar með þeim hætti kaupmátt eldri borgara og öryrkja.“

Sú sýn eða það viðhorf hefur komið fram hjá þó nokkrum þingmönnum meiri hlutans, sem og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við þessa umræðu, að bætur og lægstu laun eigi ekki að vera sama tala. Mig langar að ræða það út frá nokkrum hliðum. Það fyrsta sem ég vil segja er að lágmarkslaun eru allt of lág. Þau þarf að hækka. Það er alveg sérverkefni sem ég tel að við sem heilt samfélag þurfum að ráðast í. Hins vegar er ég í prinsippinu ósammála því að kjör þeirra sem eru á lífeyri, annaðhvort sökum þess að vera með einhvers konar skerðingu sem leiðir til fötlunar sem leiðir til þess að fólk getur ekki verið þátttakendur á vinnumarkaði eða vegna þess að fólk getur ekki verið á vinnumarkaði sökum aldurs — ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að ég vil ekki búa í samfélagi þar sem kerfisbundið er ákveðið að þessir hópar eigi að vera lægst settir í samfélaginu.

Það fylgir því auðvitað kostnaður að reka velferðarkerfi. Þetta hef ég rætt um í ræðum mínum bæði um fjárlög og í fyrri ræðum um fjáraukalögin. Þetta kom glögglega í ljós í morgun þegar greidd voru atkvæði um bandorminn svokallaða þar sem meiri hluti þingsins samþykkti skattalækkanir sem lækka mest skatta hjá hátekjufólki. Þessar skattkerfisbreytingar skila sér síst til þeirra sem hafa lægstu ráðstöfunartekjurnar. Með þessum breytingum meiri hluta þingsins er verið að minnka tekjurnar sem ríkissjóður hefur um 11 milljarða. Það er reyndar talað um að þetta muni gera að verkum að tekjurnar lækki um 11 milljarða á næstu tveimur árum. Það er nákvæmlega það sem mundi kosta að fjármagna breytingartillögur minni hluta hv. fjárlaganefndar. Þarna getur fólk bara vegið og metið. Hvort finnst því sanngjarnara að ríkissjóður afsali sér tekjum og geti þar með gert minna, m.a. fyrir þennan hóp, eða sleppi því að fara í þessar breytingar á skattkerfinu og eigi þar með fyrir því að bæta kjör þeirra sem hvað verst eru settir í samfélaginu? Þetta er önnur hlið á málinu sem mig langar að ræða hér.

Annar vinkill sem mér finnst mikilvægt að nefna er að ég fæ ekki betur séð en að verið sé að reyna að gára vatnið eða drepa einhvern veginn umræðunni á dreif með tali um fólk sem sé að svindla eða bótasvik. Fyrst gerði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra það þegar hann talaði um unga karlmenn sem væru á lífeyri. Þá hefur stundum í því samhengi verið talað um unga menn sem flosna upp úr námi og finna sér ekki stað í tilverunni og fara á bætur. Í fyrsta lagi vil ég segja að auðvitað þurfum við að hafa kerfi sem getur brugðist við því að hópur manna finni sér ekki samastað, ef svo má segja, í samfélaginu. Það gerum við meðal annars með því að hafa greiðan aðgang inn í framhaldsskólana, nokkuð sem hefur verið skert í tíð þessarar ríkisstjórnar með því að setja aldurstakmark þannig að framhaldsskólarnir eru ekki lengur opnir fyrir þeim sem eru 25 ára og eldri. Það væri eitt skref að taka þessa breytingu til baka til að auka möguleika þessara ungu manna og jafnvel alls ungs fólks sem einhverra hluta vegna hefur flosnað upp úr námi og finnur ekki alveg sína fjöl í samfélaginu. Í þessu dæmi nefndi hæstv. ráðherra sérstaklega unga karlmenn. Ég fór af því tilefni inn á vef Tryggingastofnunar ríkisins og fletti því upp. Karlmenn yngri en 30 ára sem eru á lífeyri eru 870. Hins vegar eru allir lífeyrisþegar á landinu, ef mér reiknast rétt til, yfir 45 þúsund. Það er því verið að gera ansi stórum hóp óleik með því að vilja ekki hækka ráðstöfunartekjur þeirra með vísan í að mögulega séu einhverjir ungir karlmenn að misnota kerfið með því að fara á lífeyri. Mér finnst verulega ósanngjarnt að setja málið í þetta samhengi.

Málin hafa verið sett í ansi skrýtið samhengi í umræðunni hér. Þess vegna verð ég að koma inn á ummæli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur fyrr í dag þegar hún sagðist alltaf hafa verið þeirrar skoðunar að henni fyndist óeðlilegt að lægstu laun og bætur væru sama krónutala. Hún benti á að það kostaði að vera í vinnu. Það er alveg rétt, það er ýmis kostnaður sem fellur til við að vera í vinnu, en það kostar líka að búa við einhvers konar skerðingu. Alls konar kostnaður leggst á lífeyrisþega í þyngri mæli en á fullfrískt fólk eða yngra fólk. Við getum nefnt lyf og hjálpartæki sem dæmi því að bæði lyf og hjálpartæki kosta svo sannarlega mikið.

Svo leyfði hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sér, sem einnig er formaður hv. fjárlaganefndar, að grauta saman bótasvikum, sem eru auðvitað til, við almenn skattsvik og tókst þannig að toga upphæðirnar upp í svimandi tölur sem hlupu á tugum milljarða og nefndi hreinlega að það gæti verið að tæplega 100 milljarðar skiluðu sér ekki inn í kerfið. Það er nokkuð ljóst að það er ekki vegna bótasvika lífeyrisþegar sem þessir 100 milljarðar skila sér ekki inn í kerfið. Það held ég að sé nokkuð ljóst. Mér finnst gríðarlega ósanngjarnt að setja hlutina í þetta samhengi.

Ég velti fyrir mér hvort sé verið að reyna að drepa málunum á dreif vegna þess að stemmningin í samfélaginu er sú að lífeyrisþegar eigi að fá sömu kjarabætur og aðrir hópar í samfélaginu, og vegna þess að það er stemmningin í samfélaginu sé allt tínt til til að gára vatnið og gera þessa hópa tortryggilega. Ég ætla rétt að vona að almenningur falli ekki fyrir þessum ódýru trixum.

Tíminn er alveg að fljúga frá mér. Ég hef svo oft talað úr þessum ræðustól um að alltaf þegar við erum að ræða málin verðum við að hugsa þau í samhengi. Það á ekki hvað síst við þegar kemur að fötluðu fólki. Ég átta mig á að allt fatlað fólk er ekki lífeyrisþegar en öryrkjar eru svo sannarlega partur lífeyrisþega og þeir búa við skerðingar sem margar hverjar leiða til fötlunar. Þess vegna langar mig að minna á að hæstv. ríkisstjórn vinnur að því að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar fjallar ein greinin um viðunandi lífskjör. Þegar ég lýk máli mínu langar mig að minna hæstv. ríkisstjórn og þingmeirihlutann á að það er ekki hægt að gera eitthvað í einum lögum en gera svo eitthvað allt annað með öðrum lögum. (Forseti hringir.) Það hlýtur að þurfa að hugsa þetta í samhengi.

Að lokum af því að tími minn er búinn: Takk, kæri minni hluti hv. fjárlaganefndar, fyrir að (Forseti hringir.) leggja breytingartillögu ykkar aftur fram.