145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[10:39]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði um fjáraukalögin. Seinna í dag greiðum við atkvæði um fjárlögin. Í fjárlögunum eru verulegar hækkanir á bótum almannatrygginga. Þar með er fylgt kauptryggingunni sem samið var um á almennum vinnumarkaði frá og með 1. janúar 2016. Ég legg áherslu á það og við höfum hugað að því hvernig við getum síðan tryggt að á næstu árum muni bætur áfram fylgja kauptryggingunni á almennum vinnumarkaði. Það er í samræmi við ályktun flokksþings framsóknarmanna.

Ég vil líka benda á að breytingartillögur sem hafa komið fram við fjárlögin snúa einmitt að þeim hópum sem hafa minnst á milli handanna. Það er verið að setja 1 milljarð til viðbótar inn í öldrunarþjónustu til að styðja við þá sem eru veikir, eru í heilbrigðiskerfinu og eru aldraðir. Jafnframt er verið að setja verulega fjármuni í þjónustu við fatlað fólk. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu erum við síðan að bæta verulega í varðandi stuðning við þá sem hafa minnst milli handa og eru á leigumarkaðnum.