145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

minnst látins fyrrverandi alþingismanns, Ragnhildar Helgadóttur.

[15:01]
Horfa

Forseti (Kristján L. Möller):

Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, og fyrrverandi forseti neðri deildar Alþingis, lést síðastliðið föstudagskvöld, 29. janúar, á Landspítalanum eftir stutta sjúkdómslegu. Hún var á 86. aldursári.

Ragnhildur Helgadóttir var fædd í Reykjavík 26. maí 1930. Foreldrar hennar voru Helgi Tómasson yfirlæknir og fyrri kona hans, Kristín Bjarnadóttir húsmóðir. Ragnhildur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949 og lögfræðiprófi við Háskóla Íslands 1958. Héraðsdómslögmannsréttindi fékk hún árið 1965.

Ragnhildur Helgadóttir var valin árið 1956 til að skipa sæti ofarlega á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík við alþingiskosningarnar í júní það ár, aðeins 26 ára gömul, tveggja barna móðir og þá laganemi. Hún hlaut kosningu og var eina konan sem sat þá á Alþingi. Aðeins fimm konur höfðu tekið sæti á Alþingi fyrir þann tíma og var hún yngst þeirra allra. Ragnhildur var þá jafnhliða námi húsmóðir, en hafði áður rekið verslun í Reykjavík. Hún var yngst í þingflokki sínum og hafði þá aðeins náð helmingi meðalaldurs samflokksmanna sinna. Á þeim tíma sátu margir fullorðnir og þingreyndir héraðshöfðingjar, helmingur þeirra fæddur fyrir aldamótin 1900, en margir þeirra hurfu af þingi við lok kjörtímabilsins er kjördæmaskipaninni var gerbreytt á árinu 1959.

Ragnhildur var endurkjörin við tvennar kosningar, 1959 en kaus að hverfa af þingi 1963 til að sinna fjölskyldu sinni og uppeldi barna. Hún var aftur kjörin á Alþingi 1971 og sat þá til 1979 en var síðan utan þings eitt kjörtímabil. Hún var kosin á ný þingmaður 1983 og sat fram til vors 1991 er þingsetu hennar lauk. Hún sat á Alþingi nær 24 ár, en á 28 löggjafarþingum alls.

Eftir að Ragnhildur lauk lagaprófi varð hún lögfræðingur mæðrastyrksnefndar og gegndi því starfi um árabil og um skeið var hún ritstjóri Lagasafns. Eftir að þingmennsku hennar lauk bjó hún um árabil erlendis þar sem maður hennar var dómari.

Ragnhildur Helgadóttir var á mörgum sviðum brautryðjandi í jafnrétti kynjanna í stjórnmálum. Hún var fyrst kvenna kosin til forsetastarfa á Alþingi en hún var forseti neðri deildar þingsins 1961–1962 og á ný 1974–1978. Hún varð önnur konan sem settist í ráðherrastól og fyrst til þess að sitja á ráðherrabekk heilt kjörtímabil. Hún varð menntamálaráðherra 1983 og síðan heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1985–1987. Hún varð fyrst kvenna — og raunar alþingismanna — til þess að fara í fæðingarorlof frá þingstörfum, árið 1960, sem raunar hét þá „veikindaforföll“.

Samhliða stjórnmálastörfum í 35 ár sat Ragnhildur Helgadóttir í fjölmörgum nefndum um nýja löggjöf, m.a. um skólamál, tryggingamál, málefni aldraðra og fæðingarorlof. Þá sat hún allmörg ár í tryggingaráði. Meðan hún var utan þings gegndi hún trúnaðarstöðum innan síns flokks, var í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og um tíma formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.

Á vettvangi Alþingis beitti Ragnhildur sér mest í mennta-, heilbrigðis- og tryggingamálum, en sat einnig í utanríkismálanefnd. Hún tók virkan þátt í alþjóðastarfi Alþingis, sat í Norðurlandaráði og var formaður Íslandsdeildarinnar 1974–1978 og forseti ráðsins, fyrst kvenna, árið 1975. Þá sat hún sem fulltrúi Alþingis á þingi Evrópuráðsins og var formaður Íslandsdeildar þess 1987–1991.

Eins og heyra má var Ragnhildur Helgadóttir mjög öflugur liðsmaður síns flokks, baráttuglöð, ódeig í stjórnmálum og stefnuföst, hafði skýra sýn og var einörð í að fylgja fram hugsjónamálum sínum og síns flokks. Um störf hennar ríkti ekki ávallt friður, t.d. þegar hún gegndi ráðherrastörfum. Átökin um frjálsa útvarpsstarfsemi, sem Ragnhildur beitti sér fyrir, urðu til dæmis allhörð. Henni tókst á stjórnmálaferli sínum að knýja í gegn merkilega áfanga í réttindamálum kvenna þar sem var almennt og launað fæðingarorlof kvenna.

Ragnhildur Helgadóttir var ljúf í allri framkomu og viðmóti, háttprúð og yfirveguð en gætti jafnframt vel allra formreglna í störfum sínum. Hún hafði ríka kímnigáfu og var jafnan brosmild. Þegar til átaka kom eða henni misbauð gat svipur hennar hins vegar orðið harður. Hún var málefnaleg í umræðum, samviskusöm, dugleg og nákvæm við störf sín hér á Alþingi og undirbjó sig vel til allra verka.

Ragnhildur stóð djúpum rótum í íslenskri menningarhefð, unni landi sínu og náttúru þess, svo og bókmenntum og listum. Hún var vinföst og hafði ríka réttlætiskennd, mat alla jafnt og var skilningsrík og hjálpsöm þeim sem höllum fæti stóðu. Ragnhildar Helgadóttur verður jafnan minnst sem forustumanns í menningarmálum og jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna.

Ég bið þingheim að minnast Ragnhildar Helgadóttur með því að rísa á fætur. — [Þingmenn risu úr sætum.]