145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[12:25]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna og tek undir mjög margt af því sem þingmenn hafa sagt. Ég held að þetta sé nokkuð sem okkur finnst öllum óásættanlegt þegar við sjáum þessar tölur. Við viljum bregðast við því.

Það er hins vegar líka mikilvægt að hafa í huga, eins og ég nefndi, þegar við skoðum þær tölur sem Hagstofan hefur birt og ríkisstjórn hefur fjallað um á fundum sínum að miðað við þá þrjá mælikvarða sem Hagstofan notar til að mæla lífsgæði barna stefnum við í rétta átt. Þar er batnandi atvinnustaða eða atvinnuástand lykilástæðan. Við sjáum að fjölskyldum sem eru á framfærsluaðstoð sveitarfélaganna fækkar, við sjáum að fólki á atvinnuleysisbótum fækkar.

Það sem félagsvísarnir og lífskjararannsóknir okkar hafa sýnt er að atvinnustaða er lykilþáttur þegar kemur að fátækt, fátækt barnanna okkar og fátækt almennt.

Það endurspeglast í tiltölulega háu hlutfalli, hæsta hlutfallinu hjá öryrkjum, 23% þeirra búa sem við búa við fátækt og 12,5% atvinnulausra. Það endurspeglast líka í fjölskyldugerðinni. Einstæðir foreldrar, eins og við þekkjum, eru 23% þeirra sem búa við skort og síðan 15,1% einstaklinga undir 65 ára aldri sem búa einir. Þetta eru þeir einstaklingar sem eru á biðlistum eftir félagslegu húsnæði.

Við höfum ekki fjölgað íbúðum í félagslega leiguíbúðakerfinu og hvað varðar biðlista voru í lok árs 2014 1.652 á biðlista og það eru væntanlega umtalsvert fleiri ef við tökum það sem fjölskyldur, sem eru þá einstaklingar sem eru þar á bak við og börnin okkar.

Meðalbiðtími eftir félagslegri íbúð var 25,6 mánuðir og lengsti biðtíminn eftir húsnæði var á höfuðborgarsvæðinu, í Kópavogi og í Reykjavík. (Forseti hringir.) Þetta er algjört lykilatriði.

Hvað á að gera núna? Ég nefndi það sem snýr að þessu tilraunaverkefni (Forseti hringir.) en það sem við erum að gera núna er að við erum með fjármuni (Forseti hringir.) til að setja í þessi verkefni. Það er búið að afgreiða það á vegum Alþingis. Nú þarf Alþingi bara að afgreiða þau frumvörp sem eru í velferðarnefnd.