145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er ekki hægt að segja að velferðargleraugun séu höfðu uppi hjá þessari ríkisstjórn. Það er einhvern veginn það sjónarhorn að hægt sé að stugga við fólki, koma því út af þessum fjárans bótum, koma því í vinnu og helst út af örorku, reyna bara að láta það sjá um sig sjálft og þá hverfi vandinn. Vandinn hverfur hins vegar ekki neitt þótt fólk sé svelt til hlýðni. Við þekkjum það að vandinn hverfur ekki neitt. Það sem þessi ríkisstjórn hefur gert á svo mörgum sviðum er auðvitað að draga úr velferð þeirra sem þurfa á henni að halda og það er stórhættuleg þróun.

Ég tel mjög mikilvægt að sveitarfélögin öll samræmi fjárhagsaðstoð sína með jákvæðum formerkjum og færi hana miklu nær þeim framfærsluviðmiðum sem eru hjá velferðarráðuneytinu. Velferðarvaktin hefur lagt fram margar skynsamlegar tillögur, lagði þær fram í fyrra í mörgum liðum og gat út skýrslu. Ég sé ekki að mikið mark hafi verið tekið á þeirri skýrslu Velferðarvaktarinnar í þessu frumvarpi frekar en í öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það er mikið áhyggjuefni þegar verið er að láta vinna úttekt eins og Velferðarvaktin fylgist með og leggur til, hún greinir vanda og svo ekkert farið eftir því sem þar kemur (Forseti hringir.) fram.