145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

sala ríkisins á leigufélaginu Kletti ehf.

488. mál
[16:30]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég ítreka það sem ég sagði í fyrra svari mínu, að það er skýrt hver vilji löggjafans var varðandi ráðstöfun á þeim eignum sem Íbúðalánasjóður hefur tekið yfir með nauðungarsölu í framhaldi af hruninu. Þar kemur fram að þetta er tímabundin heimild til að eiga leigufélag.

Það var ekki ætlunin að breyta hlutverki Íbúðalánasjóðs til framtíðar og samhliða þeim breytingum sem verið var að gera á sínum tíma var verið að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA, meðal annars við þeirri niðurstöðu þeirra að Íbúðalánasjóður nyti ríkisaðstoðar. Það hefur líka verið bent á að ESA hefur þá litið svo á að það sé forsenda fyrir eignarhaldi og rekstri leigufélagsins að ekki sé um ríkisaðstoð að ræða gagnvart félaginu, að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða til að hámarka virði eigna Íbúðalánasjóðs. Það má því segja að sala félagsins sé liður í því að uppfylla þær forsendur sem ESA setti fyrir samþykki á núverandi kerfi ríkisaðstoðar.

Það er líka mat stjórnarinnar að það séu verulegar rekstrarlegar ástæður fyrir því að selja leigufélagið Klett og geti haft jákvæð áhrif á rekstur sjóðsins; og einnig að nú sé réttur tími til sölu félagsins hvað það varðar að hámarka virði eigna sjóðsins sem mundi hafa jákvæð áhrif á afkomu þess og styrkja eigið fé sjóðsins.

Hins vegar er líka mikilvægt að hafa í huga hvað sjóðurinn hefur verið að gera. Það má segja að hann hafi nokkurn veginn verið að búa til fjölmörg leigufélög með sölu eignasafna þar sem tekin var ákvörðun um að byrja á að selja minni svokallaða leigufélagapakka (Forseti hringir.) til að sannreyna markaðinn í opnu og gagnsæju ferli og menn hafa vandað sig verulega þar. (Forseti hringir.) Sjóðurinn seldi 286 eignir í fimm eignasöfnum í opnu söluferli á árinu 2015 og það stendur í sambærilegu ferli þar sem boðin voru fram 15 eignasöfn. Það má því halda því fram að þarna hafi þá orðið til um 20 leigufélög.