145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:49]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga með síðari breytingum (skilyrði um fjárhagsaðstoð). Það hefur margoft komið fram að mikill vilji hefur verið hér í þinginu til að gefa sveitarfélögunum í landinu sambærilegar reglur til að fara eftir í skilyrðingu um fjárhagsaðstoð. Þetta lagafrumvarp kom fram strax á síðasta þingi og var lagt fram af ríkisstjórn með því loforði að aðstoða sveitarfélög við að koma þessum skilyrðingum á.

Ég held að við séum öll sammála um að upphæð félagsaðstoðar er ekki há og okkur mun trúlega alltaf finnast hún lág. Trúlega er eilíft verkefni að hækka hana. Það er mikið unnið með því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Í Hafnarfirði er, eins og hér hefur komið fram, unnið verkefni sem hefur gengið afar vel. Verkefnið er kallað Áfram. Það er verkefni til að hjálpa fólki áfram til sjálfshjálpar. Það er kallað nýtt tækifæri í Hafnarfirði fyrir einstaklinga á fjárhagsaðstoð. Mig langar í stuttu máli að gera grein fyrir þeirri miklu vinnu sem þau hafa unnið í Hafnarfirði og þeim góða árangri sem þau hafa náð.

Hafnarfjörður hefur gert grundvallarbreytingu á reglum og verkferlum bæjarins varðandi fjárhagsaðstoð. Tilgangur hennar er að aðstoða til virkni, vinnu og sjálfsbjargar í stað hlutlauss fjárhagsstyrks. Notendur fjárhagsaðstoðar njóta því betri þjónustu og ríkari réttinda en áður en bera jafnframt skyldur. Allir umsækjendur um framfærslu eiga rétt á þjónustu og einstaklingsbundnu mati á aðstæðum og hagsmunum umsækjanda þar sem virkni og virðing fyrir hverjum og einum eru höfð að leiðarljósi. Þetta er auðvitað allt unnið af fagfólki, félagsfræðingum.

Vinnufærir umsækjendur fá umboð um tímabundið starf í stað styrks. Greidd laun eru ávallt samkvæmt gildandi kjarasamningum og starfið að lágmarki tveir þriðju hlutar af fullu starfi. Umsækjendur með skerta vinnufærni fá tilboð um virka aðstoð við endurkomu á vinnumarkað með virkniúrræðum samhliða hlutastarfi eða starfsendurhæfingu. Þetta er gert með boði um úrræði í samstarfi við Vinnumálastofnun, boði um starfsendurhæfingu í samstarfi við Virk og starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar, boði um vímuefnameðferð í samstarfi við SÁÁ og boði um önnur úrræði eftir þörfum hvers og eins. Umsækjendur sem hafna boði um vinnu eða virkniúrræði eiga rétt á hálfum þeim fjárhagsstyrk sem þeir ella fengju næstu þrjá mánuði eftir að þeir hafna slíku tilboði. Við ítrekaðar hafnanir lengist sá tími sem viðkomandi getur nýtt hluta styrks.

Á bak við þennan samning, þetta ákall til fólksins, eru margar reynslusögur sem flestar eru mjög fallegar og sýna hvað fólkið hefur náð sér á strik með því að fara þessa leið. Þegar Hafnarfjarðarbær fór af stað með þetta voru þegar sköpuð hundrað störf hjá sveitarfélaginu, hundrað störf í atvinnulífinu, sem strax voru fyllt upp. Það hefur komið í ljós að á árunum 2012–2013 voru að jafnaði 290–300 manns á framfærslu í Hafnarfirði. Þegar Áfram-verkefnið fór af stað árið 2014 voru 298 á framfærslu. Í dag eru 120 manns á framfærslu. Það er fólk sem þarf meiri stuðning í starfsendurhæfingu til að komast út á vinnumarkaðinn. Þannig að það má segja að tæplega 200 manns séu komnir á vinnumarkaðinn vegna þess að beitt var hóflegum skilyrðingum til að aðstoða fólkið til starfa eða við að koma sér í nám.

Ég verð að segja að þetta verkefni Hafnfirðinga finnst mér vera leiðandi fyrir okkur að horfa á; þann árangur sem þeir hafa náð á faglegum grunni. Það hafa 59 einstaklingar verið skertir, þrír skertir til langframa eða lengri tíma. Það er greinilegt að þetta er að skila gríðarlegum árangri. Það er vissulega erfitt að beita fólk skilyrðingum en það er oft eina leiðin til að fá það til að koma sér úr erfiðri stöðu sem það hefur lengi verið í. Þetta er gert hjá Hjálparstarfi kirkjunnar og þetta gera mjög mörg samtök sem aðstoða fólk í landinu.