145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[17:23]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar, eins og margoft hefur komið fram hjá mér, að við eigum ekki að hika við að fara leið tvíhliða viðskiptasamninga jafnvel þótt EFTA hafi ekki á þeim áhuga. Bendi ég þá á og rifja upp að það var einmitt áhugi Íslendinga í gegnum tengsl sín við Vestur-Íslendinga sem leiddi til þess að við byrjuðum á viðræðum við Kanada um tvíhliða fríverslunarsamning sem að lokum varð fríverslunarsamningur milli EFTA og Kanada. Það tók að vísu 12 eða 14 ár að klára. Þannig leiddi sá áhugi okkar til ávinnings sem skipti máli.

Í því tiltekna máli sem við ræðum er sú sérkennilega staða uppi að eitt ríki í Evrópu hefur fríverslunarsamning við Japan og það er Sviss. Sviss fór í það án þess að leita eftir því að EFTA tæki þann samning. Ef það hefði gerst þá hefðum við sennilega verið í miklu betri stöðu núna, sérstaklega varðandi útflutning okkar á sjávarafurðum til Japans.

Það er þess vegna sem ég segi að við eigum núna að fara sjálfir í þetta og gera tvíhliða samning við Japan, vegna þess að EFTA hefur engan áhuga á því út af þessari sérstöku stöðu.

Ég hef síðan mjög skýra afstöðu til þess hvað við eigum að gera sem næstu skref. Ég tel að við eigum að fara í gegnum EFTA eða þess vegna tvíhliða í viðræður við ASEAN, sem er bandalag tíu ríkja í Suðaustur-Asíu, um fríverslun. Það bandalag er búið að byggja innan sinna vébanda ansi sterklega heild. Minnir svolítið á Evrópusambandið en það er samt í veigamiklum atriðum öðruvísi.

Þetta ríkjasafn held ég að sé hið næsta efnahagslega tígrisdýr. Þessi ríki soga til sín fjármagn til dæmis frá Kína og Japan vegna þess að vinnuafl er ódýrara, (Forseti hringir.) þar er örbirgð. Það skiptir miklu máli fyrir þessi ríki að vinna sig upp. Ég held þess vegna að við eigum að stuðla að því með gerð fríverslunarsamnings sem mundi leiða til íslensks ábata og hugsanlega fjárfestinga EFTA-ríkjanna.