145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

brottvísun flóttamanna.

[10:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég sagði, við teljum að á hverjum tíma sé ástæða til að fara betur yfir það verklag sem við viðhöfum. Ég bendi líka á að í þeim mikla fjölda sem til okkar streymir núna hefur reynt verulega á allt verklagið í kringum þessi mál. Ég tek fram að mér finnst að menn verði aðeins að skilja ábyrgð þeirra sem starfa í þessu kerfi — svo við notum það orð yfir það sem við erum vön að gera — á málunum. Það er meira en að segja það að standa frammi fyrir þeim ákvörðunum sem við erum hér að fjalla um. Við treystum Útlendingastofnun til þess. Við þurfum líka að gæta þess að hún hafi þau tæki og tól sem þarf til þess að gera hlutina vandlega. Hér er líka um að ræða samspil milli ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnunar. Það kann vel að vera að þar sé hægt að hnykkja betur á og upplýsa betur um hvernig hlutir fara fram. Ég ítreka að það er það sem við erum að fara yfir núna í ráðuneytinu.