145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

öryggismál ferðamanna.

[10:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Upp úr miðju síðasta ári var í innanríkisráðuneytinu tekin sú ákvörðun að nauðsynlegt væri að líta sérstaklega til öryggismála ferðamála, til hlutverks innanríkisráðuneytisins í þeim efnum, til að kanna hvað innanríkisráðuneytið gæti gert til að huga sérstaklega að því hvernig mæta mætti þeim áskorunum sem hinn mikli fjöldi ferðamanna hefur í för með sér og færir svo sannarlega íslensku þjóðarbúi mjög miklar tekjur.

Við fengum síðla hausts niðurstöðu úr þeim vinnuhópi. Það var sérstaklega horft til löggæslunnar í þeim efnum. Þar kemur fram, sem við vissum auðvitað, að það þarf að gera töluvert mikið átak í löggæslumálum. Í framhaldi af því ákvað ráðuneytið að halda áfram með þær athuganir og gera áætlanir á þeim grundvelli sem þar birtist.

Það skiptir nefnilega máli að menn gefi sér tíma til að fara líka yfir áætlanirnar. Jafnvel þótt vandinn sé mikill á hverjum tíma og við reynum að bregðast við honum skiptir vönduð áætlanagerð gríðarlega miklu máli þegar við tökumst á við þá áskorun sem við erum hér að tala um. Ég vil alls ekki gera lítið úr því að áætlanagerð þurfi að vera vönduð og að til hennar þurfi að stofna af alvöru. Það höfum við gert og ég ítreka að það var gert á síðasta ári.

Svo finnst mér að menn verði að gæta sanngirni í málflutningi. Hafa ekki verulega auknir fjármunir verið settir í ferðamannastaði á undanförnum missirum? Vilja menn ekki fallast á það? Voru ekki settir auknir peningar í löggæsluna? Það hefur verið gert. Er ekki svo? Voru ekki enn fremur þær 1.800 milljónir sem voru ákveðnar á síðasta ári til aukins framlags í samgöngumálum ætlaðar sérstaklega vegna ferðamannastaða? Er það ekki svo?

Um leið og við gerum okkur grein fyrir ögruninni sem við stöndum frammi fyrir skulum við líka taka eftir því sem þó hefur verið gert. Við skulum gera það og gæta sannmælis í þeim málflutningi sem við berum fram.