145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

verðtrygging og afnám hennar.

[11:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Kosningaloforðin fyrir síðustu kosningar um afnám verðtryggingar voru auðvitað allt of digurbarkaleg. Ég býst við að við munum ekki sjá svoleiðis loforð fyrir næstu kosningar vegna þess að auðvitað er málið flókið eins og m.a. þessi umræða sýnir.

Ég og við í Bjartri framtíð viljum að sjálfsögðu losna við verðtrygginguna. Við viljum ekki að lánamarkaðurinn á Íslandi sé verðtryggður. Verðtryggð lán eru mikil meinsemd og þau geta komið illilega aftan að lántakendum eins og sýndi sig í hruninu og þar fram eftir götunum.

En við höfum hins vegar sagt að við megum ekki missa fókusinn á grundvallarverkefnið sem er að styrkja grundvöll efnahagslífsins, gera hann þannig að boðið verði upp á lága vexti á húsnæðislánum. Núna metur markaðurinn það einfaldlega þannig að of mikil áhætta sé í íslensku efnahagslífi. Þess vegna er fjármagnið dýrt. Þetta sjáum við bara með því að skoða efnahagssöguna, hér verða ítrekað mjög stórar sveiflur í verðbólgu og verðtryggingin er einfaldlega leið markaðarins til þess að reyna að tryggja sig gegn því.

Hvert er hið raunverulega markmið? Viljum við ekki sjá á Íslandi þannig efnahagsumhverfi að við getum treyst því að hér verði óverðtryggð lán með kannski 2–3% vöxtum, sem er þó meira en í mörgum nágrannaríkjunum? Ef við teljum að þetta sé hægt — og við í Bjartri framtíð teljum að þetta sé t.d. hægt með því að ganga í myntsamstarf við Evrópu og höfum haldi því á lofti í þessari umræðu — þá eigum við að stefna að því marki. Þá verður verðtryggingin óþörf. Vægi hennar hefur verið að minnka á undanförnum árum með auknu framboði á óverðtryggðum lánum og það er mjög gott. En ég held að verðtryggingin hverfi ekki fyrr en við erum búin að ná markmiðinu um stöðugt efnahagslíf.