145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2014.

417. mál
[12:08]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta vera mjög góð hugmynd. Hugsanlega má líta á upplýsingaefni sem kemur og hefur komið frá embætti umboðsmanns Alþingis sem vísi að slíkri vinnu. Mér finnst það vera mjög góð hugmynd mönnum sé gert að setjast niður og fara yfir grundvallaratriði í stjórnsýslunni og íslenskum lögum, gagnvart fólki sem á að vinna með þessi lög og á að þekkja réttindi borgarana. Það sem þarf að innræta í stjórnsýslunni allri og minna hana á er að hún er til þess orðin að þjóna borgurum þessa lands. Hún er til fyrir samfélagið. Auðvitað þarf hún þá að þekkja þau lög og þau réttindi sem fólk hefur gagnvart stjórnsýslunni, þeim sem síðan fara með umsýslu og vald. Mér finnst þetta vera góð hugmynd og að taka eigi hana alvarlega, hvert sem formið yrði nákvæmlega, hvort sem það yrði einhver stofnun eða skóli eða eins og hv. þingmaður nefnir og ég tek undir, að það verði einhver námskeið; að fari verði með skipulegum hætti yfir þessi mál. Þá sakar ekki að lesa kannski eitt eða tvö Andrésblöð í leiðinni.