145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

styrkir og uppbætur til bifreiðakaupa hreyfihamlaðra.

516. mál
[17:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka af mér ómakið og svara síðari spurningunni sem mér vannst ekki tími til að koma orðum að, en hún er ansi almennt orðuð þar sem ég spyr um hvort aðrar breytingar séu fyrirhugaðar á bifreiðamálum hreyfihamlaðs fólks samanber tillögurnar sem settar eru fram í skýrslu starfshóps um stuðningskerfi til að auðvelda för hreyfihamlaðs fólks.

Við getum öll verið sammála um að auðvitað viljum við ekki að lög eða reglugerðir séu misnotaðar og þarna er alltaf spurning um að finna ballansinn á milli þess að hafa reglurnar of þröngar og hafa þær of víðar. Ég held að við þurfum líka að hugsa til þess að þjónusta við fatlað fólk eða hreyfihamlað fólk tekur breytingum eftir því sem tíminn líður og þess vegna hlýtur alltaf að þurfa að endurskoða lög og reglugerðir í því ljósi. Ég held að bæði hugur minn og hæstv. ráðherra standi til þess að fleiri fatlaðir einstaklingar geti nýtt sér NPA og því tel ég að skoða þurfi sérstaklega ákvæðið um að bifreiðarkaupandinn sjálfur aki bifreiðinni eða annar heimilismaður.

Varðandi seinni spurninguna þá er rétt að uppbætur hafa verið hækkaðar, en þó ekki nógu mikið eða jafn mikið og lagt er til í skýrslunni. Mig langar fyrir seinni innkomu ráðherra að spyrja hana hvort hún hyggist beita sér fyrir því að auknir fjármunir verði settir til þessa við (Forseti hringir.) fjárlagagerð næsta árs til að betur sé hægt að efna eða koma til móts við þær tillögur sem settar eru fram í skýrslunni.