145. löggjafarþing — 82. fundur,  1. mars 2016.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er hrópandi hvað geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga er miklu lakari en önnur heilbrigðisþjónusta við börn og unglinga á Íslandi. Það er eitthvað ótrúlega ósanngjarnt við það að það fari eftir því hvers konar sjúkdómar herja á börn og unglinga hvort þau fá góða þjónustu eða ekki.

Verði börn og unglingar fyrir slysi búum við að mörgu leyti við frábæra bráðaþjónustu. Við eigum glæsilegan barnaspítala og á mörgum sviðum erum við með hreint stórkostlega heilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Auðvitað ekki alls staðar, en víða.

Þegar kemur að geðheilbrigðisvanda hjá börnum og unglingum er dæmið hins vegar allt annað, þá eru 700 og eitthvað börn á biðlista. Þá vantar verulega upp á stefnumörkun, þá eru vandræði í húsnæðismálum og Ríkisendurskoðun segir okkur það algerlega afdráttarlaust að þetta sé ekki í lagi, að við þurfum að taka verulega á í geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga á Íslandi.

Ég skora á þingmenn að við tökum höndum saman þvert á stjórnmálaflokkana og látum það ekki vera gamla fordóma gagnvart sjúkdómum af ákveðnu tagi sem ráði forgangsröðuninni; að bráðavandi í geðheilbrigðismálum verði tekinn jafn alvarlega og þegar við slösum okkur.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna