145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar sjö ára endurskoðunarákvæðið, bráðabirgðaákvæðið, þá skil ég mætavel að hv. flutningsmenn hafi farið eftir dönsku lögunum, enda ágætt að byggja á einhverju sem menn vita í meginatriðum hvernig virkar. Mér finnst það í sjálfu sér ekki endilega vera eitthvert aðalatriði að leyfið gildi til 15 ára en lögin endurskoðuð innan sjö ára, en mér finnst það vera eitthvað sem þurfi að vera á hreinu hvernig eigi að virka.

Til dæmis velti ég fyrir mér ábyrgðarleysi, vegna þess að við höfum ekki skoðað í nefnd enn þá hvort þetta búi til einhverjar réttmætar væntingar hjá þeim leyfisaðila sem mundi fá leyfið. Hvernig réttarstaða hans yrði þegar lögin væru síðan endurskoðuð. Ég hygg reyndar svona í fljótu bragði að það yrði ekki vandamál. Mér finnst bara mikilvægt að það væri á hreinu að það væri ekki vandamál og sjálfsagt að binda þann hnút einhvern veginn með góðum hætti.

Það sem ég hef í raun og veru meira að setja út á, og það kemur líka frá dönsku lögunum, er að það sé takmörkun á fjölda leyfa sem eru gefin út. Danmörk er auðvitað miklu stærra samfélag en Ísland og því miklu meira svigrúm fyrir fleiri leyfishafa. En að hér sé einungis svigrúm, samkvæmt flutningsmönnum frumvarpsins, fyrir einn aðila, það finnst mér vera vandamál. Ég tel að ef samkeppni mundi ganga af þessum iðnaði dauðum væri það lexía sem mundi ekki valda íslensku samfélagi neinu teljandi tjóni. Mér þætti það bara vera þau skilaboð að ekki væri markaður fyrir þessa starfsemi á Íslandi. Það væri mér líka alveg að meinalausu. Alveg eins og það er mér alveg að meinalausu að þetta sé starfrækt.

Ég sé ekki þörfina fyrir þetta í sjálfu sér. Mér finnst þetta snúast aðallega um grundvallarprinsippið að hlutirnir eigi að vera leyfilegir þar til þeir eru sérstaklega bannaðir.