145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

uppbygging nýs Landspítala.

[15:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Þetta eru allmargar spurningar. Ég skal reyna að komast eins hratt í gegnum þær og ég get. Ég hef rætt þessi mál við fjölmargt fólk, áhugamenn og sérfræðinga, starfsmenn á spítala, námsfólk og fleiri. Ég veit að ýmsir hafa áhyggjur af því að ef spítalinn verði byggður of fjarri háskólanum setji það strik í reikninginn en þeir sem hafa þær áhyggjur benda þá fyrst og fremst á að þá sé nauðsynlegt að hafa aðstöðu fyrir námið í grennd við spítalann. Og að sjálfsögðu hlyti það að verða niðurstaðan að rétt eins og menn ætla að byggja nýja aðstöðu fyrir námið við Hringbraut yrði það gert líka við hinn nýja spítala. Það er hins vegar óþarfi að nemendur á heilbrigðissviði séu í nálægð við allar aðrar háskólabyggingar, stúdentakjallarann, aðalbyggingu háskólans og hvaðeina, á hverjum degi. Aðalatriðið er að menn hafi góða aðstöðu þar sem hún er fyrir hendi.

Þegar því var haldið fram að best væri að byggja spítalann við Hringbraut byggðist það á tilteknum forsendum. Þar var nefnt að mikilvægt væri að nýta gömlu byggingarnar. Síðan þá hefur eitt og annað komið á daginn með þessar byggingar og ástandið á þeim og óþarfi að rekja það hér í löngu máli því að við höfum fengið að sjá það í fréttum vikulega síðustu missiri og ár. Það stóð líka til að nota uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut til að styrkja og efla miðborgina þegar hún átti svolítið undir högg að sækja, eins og má segja. Þar hefur nú aldeilis orðið viðsnúningur og menn tala um sérstakt miðbæjarálag í verði, 50% álag á eignum í miðbænum. Þannig að í raun hefur dæmið snúist við hvað það varðar og skapað tækifæri til þess að ríkið selji þarna eignir á mjög dýrum stað og nýti það fjármagn til að ráðast í uppbyggingu annars staðar.

Hvað varðar samráð við aðra hér á þingi eða ráðherra þá veit hv. þingmaður (Forseti hringir.) — ég held áfram að svara, virðulegur forseti, í næsta andsvari.