145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

erlendir leiðsögumenn.

[15:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Greint er frá því í fjölmiðlum í dag að umsóknum um undanþágur vegna leiðsagnar á Íslandi, leiðsagnar erlendra leiðsögumanna á Íslandi, hefur fjölgað mjög. Ég held að það sé talað um tvöföldun á þeim fjölda. Þetta eru leiðsögumenn sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins vegna þess að þeir sem eru innan þess hafa full réttindi til að sinna leiðsögn hér á landi.

Ég hef af þessu nokkrar áhyggjur því að samfara miklum fjölda ferðamanna fjölgar þeim sem fara um náttúru Íslands. Þar sem ég hef af þessu áhyggjur hef ég flutt tillögu þess efnis að skilgreind verði einhvers konar hæfisskilyrði leiðsögumanna, að minnsta kosti í þjóðgörðum, þjóðlendum og friðlöndum á Íslandi, þannig að menn tryggi að ákveðin lágmarksþekking sé til staðar fyrir þá sem fara með hópa fólks um þessi viðkvæmu svæði.

Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvað ríkisstjórnin og hann er að gera í þessum efnum, hvort verið er að undirbúa eitthvað slíkt. Ég held að þetta sé brýnt verkefni.

Eitt af þeim tólum og tækjum sem menn hafa yfir að ráða í þessum efnum er til dæmis að vera með sérreglur um þjóðgarða. Það hafa önnur lönd gert og eru fordæmi fyrir því. Þess vegna er hægt að vera með slík hæfisskilyrði þrátt fyrir réttindi leiðsögumanna sem hafa kannski ekki mikla þekkingu á íslenskri náttúru.

Hvað er ríkisstjórnin að gera í þessu? Mætti til dæmis ekki nýta þá hugmynd að búa til stóran þjóðgarð á miðhálendi Íslands í þessu skyni?

Mig langar að heyra hvaða vinna er í gangi hjá hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum vegna þess að þetta er brýnt. Þetta brennur á okkur öllum. Það er því miður á öðrum sviðum þessum tengdum, þegar kemur að fjölda ferðamanna, sem ríkisstjórnin hefur flotið alveg fullkomlega sofandi að feigðarósi.