145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

almenn hegningarlög.

401. mál
[16:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í síðustu viku sendi nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum tilmæli til íslenskra stjórnvalda sem fjallaði meðal annars um þessi mál sem við hv. þingmaður erum að ræða hér. Í pappír sem Sameinuðu þjóðirnar senda íslenskum stjórnvöldum er aðallega tvennt nefnt, annars vegar að stjórnvöld samþykki tafarlaust aðgerðaáætlun gegn kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi sem taki tillit til þarfa kvenna með fötlun og kvenna af erlendum uppruna og tryggi fjármagn og mannafl til að lögregluembætti úti um allt land geti tekið upp verklag lögreglunnar í Reykjavík í ofbeldismálum, sem hv. þingmaður nefnir hér og er til sérstakrar fyrirmyndar, ég tek undir það. Hins vegar kemur fram í tilmælunum til íslenskra stjórnvalda — ég tel rétt að nefna þau þó að það sé ekki beinlínis undir í umræðunni hér hjá okkur en það fellur undir verksvið hv. allsherjar- og menntamálanefndar — að þessi nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám mismununar nefnir að íslensk stjórnvöld þurfi að grípa tafarlaust til aðgerða, jafnvel sértækra aðgerða eins og kynjakvóta, til að fjölga hratt konum innan lögreglunnar, í Hæstarétti og í háttsettum stöðum innan utanríkisþjónustunnar. Þá er væntanlega verið að tala fyrst og fremst um stöðu sendiherra.

Ég tel að við hv. þingmaður séum efnislega sammála þeim áherslum sem koma fram hjá nefnd Sameinuðu þjóðanna og spyr hana hvernig hún telji að þingið geti haft forgöngu um það að verða við þessum tilmælum og koma þessum áherslumálum á dagskrá, þá væntanlega einhvern veginn í samráði við framkvæmdarvaldið. Er ekki rétt að allsherjar- og menntamálanefnd taki frumkvæði í því að verða við þessum ábendingum hér og koma þeim í uppbyggilegan farveg?