145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

hagsmunatengsl forsætisráðherra.

[15:45]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka vinalegar móttökur frá hæstv. utanríkisráðherra. Það sem ég var að lesa upp hér áðan var úr fjölmiðlum, var úr Ríkisútvarpinu, og eru staðfestar heimildir, meðal annars frá forsætisráðuneytinu. Hér hefur enginn minnst á maka þingmanna og ráðherra nema stjórnarliðar. Upplýsingar úr forsætisráðuneytinu fela það í sér að hæstv. forsætisráðherra hafi verið eigandi að félagi sem gerði kröfur í íslensku bankana, eigandi að félagi skráðu á Tortólu sem gerði síðan kröfur í alla íslensku (Gripið fram í: Það er rangt.) bankana. Það hefur eiginkona forsætisráðherra meira að segja staðfest. Það er þetta, (Gripið fram í: Farðu rétt með.) að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa gert grein fyrir sínum hagsmunum sem einstaklingur, sem þingmaður og síðan sem forsætisráðherra sem er að semja á sama tíma við kröfuhafana sem hann kallar sjálfur hrægamma, að hann skuli hafa hagsmuni þeim megin borðsins líka. (Forseti hringir.) Þess vegna á þetta mál heima hér inni og ég vil gefa hæstv. forsætisráðherra tækifæri á því að útskýra sitt mál fyrir þinginu.