145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:47]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég nota þetta tækifæri til að taka heils hugar undir þakkir sem hér hafa komið fram til hæstv. utanríkisráðherra fyrir hans góðu störf ásamt öllu því ágæta starfsfólki og ræðismönnum sem vinna ötullega að því að gæta hagsmuna Íslands á erlendum vettvangi. Vil ég einnig þakka fyrir góða umræðu sem hefur komið að mörgum hliðum þessa stóra og fjölbreytta viðfangsefnis sem utanríkismálin eru. En vegna tímamarka mun ég reyna að afmarka framsögu mína við atriði sem varða viðskipti okkar við önnur ríki.

Eins og allir vita er Ísland mjög lítið og opið hagkerfi og lífskjör í landinu grundvallast á því að viðskipti okkar við önnur ríki séu frjáls og óhindruð. Ég vil í þessari stuttu ræðu fjalla nánar um þessi mál og þær blikur sem eru á lofti á helstu viðskiptamörkuðum okkar.

Meira en helmingur landsframleiðslu Íslands kemur af útflutningi á vöru og þjónustu en til samanburðar eru aðeins rúm 10% af landsframleiðslu í Bandaríkjunum í formi milliríkjaviðskipta og þriðjungur af landsframleiðslu í Bretlandi. Við höfum gríðarlega margt að bjóða, hreina orku, matvæli, þekkingu og tækni, en vegna fámennis þurfum við líka að flytja margt inn, hátækni þar á meðal og alls kyns varning. Útflutningurinn er þess vegna undirstaða þess að við getum flutt inn annað sem við þurfum hér. Við eigum að sjálfsögðu að sækjast eftir frjálsum viðskiptum við aðrar þjóðir en megum þó aldrei láta glepjast til þess að opna fyrir slík viðskipti gegn því að skerða fullveldi landsins á nokkurn hátt. Markmið frjálsra viðskipta er að sjálfsögðu að bæta lífskjör almennings en þau eiga ekki að þjóna sérhagsmunum alþjóðafyrirtækja. Fullveldi og réttur þjóðarinnar til að setja alþjóðlegum fyrirtækjum lög og reglur innan eigin lögsögu þarf því ávallt að vera óskoraður.

Innflutningur á fjölbreyttum vörum eða þjónustu er öllum til góðs en við þurfum samt að virða ákveðin sjónarmið. Við eigum að gera kröfu um að vörurnar séu framleiddar í ríkjum sem virða mannréttindi og sömu kröfu til þeirrar vöru sem við framleiðum hér heima og til okkar eigin framleiðenda. Við eigum að gera strangar kröfur um heilbrigði og hreinleika og velferð dýra í innlendri matvælaframleiðslu og við eigum að gera sömu kröfur til þeirra matvæla sem við flytjum til landsins. Viljum við flytja inn dýraafurðir frá ríkjum sem ofnota sýklalyf eða aka lifandi dýrum þúsundir kílómetra til slátrunar? Viljum við flytja inn matvæli sem framleidd eru með vinnuafli sem hvergi er skráð og nýtur ekki lágmarksréttinda? Við leggjum áherslu á að bjóða starfsfólki hér á landi mannsæmandi kjör og starfsaðstæður og megum þá ekki flytja inn vörur frá ríkjum þar sem mannréttindi eru ekki virt eða þar sem framleitt er við aðstæður sem hér mundu teljast óboðlegar. Ef við gætum ekki að því að gera sömu kröfur til innflutningsins og innlendrar vöru og framleiðslu mun innlend framleiðsla smátt og smátt flytjast úr landi til þeirra ríkja sem gera minnstar kröfur til framleiðslu sinnar, minnstar kröfur til dýravelferðar, minnstar kröfur til mannréttinda, efnanotkunar og annars. Við þurfum ávallt sem neytendur og í erlendum viðskiptum okkar að hafa það hugfast.

Það verður ekki hjá því komist að ræða EES-samstarfið og það sem hér hefur verið nefnt í umræðu stjórnarskrárvandinn. Ég vil segja að sem betur fer hindrar stjórnarskrá Íslands framsal dómsvalds og ríkisvalds úr landi. Sumir virðast telja þetta vandamál og tala um stjórnarskrárvandann en ég er alls ekki sammála því. Ef stjórnarskráin hefði leyft framsal á dóms- og ríkisvaldi í einhverjum mæli værum við án efa í veikari stöðu til að standa gegn viðleitni ESB til að draga til sín sífellt meiri völd. ESB hefur á undanförnum 20 árum dregið til sín sífellt meiri völd frá aðildarríkjum sínum. Þessu hafa aðildarríkin ekki getað staðið gegn eða spornað við. En þetta hefur líka reynt á samstarfið við EES-ríkin og stjórnarskrár Íslands og Noregs.

ESB hefur að sjálfsögðu ekkert tilkall til þess að Ísland eða Noregur framselji völd til ríkisstofnana ESB. Þess vegna vekur furðu og eru vissulega vonbrigði hve oft ESB hefur lagt til löggjöf sem byggir á að draga völd til Brussel. Það veldur vissum áhyggjum um það hver afstaða manna er þarna á bæ og virðingarleysi forustu ESB við íslenska stjórnarskrá. ESB á þrátt fyrir allt í viðskiptum við fjölda erlendra ríkja án þess að þau þurfi að framselja nokkur völd til ESB. Þar má nefna til dæmis Kanada og ýmis önnur ríki sem eiga í ágætum og frjálsum viðskiptum við Evrópusambandið. Viðskipti eiga að sjálfsögðu ekki að kalla á skerðingar á fullveldi eða lýðræði, þau eiga eingöngu að bæta afkomu þeirra þjóða sem eiga viðskiptin.

Það er ekki hjá því komist í þessari ræðu að fjalla um vaxandi vandamál í Evrópusambandinu og því hagkerfi vegna þess að verulegur hluti af utanríkisviðskiptum okkar er til Evrópusambandsríkja. Sá vandi væri vissulega meiri og varla umflúinn ef við hefðum stigið það ógæfuskref að gerast aðilar að Evrópusambandinu en sem betur fer var umsóknin afturkölluð, enda hafði hún strandað og viðræðurnar við Evrópusambandið höfðu strandað löngu áður. En í ljósi þessara vandamála Evrópusambandsins ætti að vera fullt tilefni fyrir utanríkisþjónustuna að leita leiða til að efla aðgang Íslands að öðrum mörkuðum þar sem horfur eru betri og áhættan minni. Áhættudreifing er mikilvæg í útflutningi sem og öðrum efnum. Helstu vandamál Evrópusambandsins í fljótu bragði eru vandi myntbandalagsins, sem er algerlega óleystur vandi og fer vaxandi, gríðarlegt ójafnvægi á fjármálamörkuðum í Evrópusambandinu, seðlabanki myntbandalagsins hefur dælt gríðarlegu lausafé inn í kerfið í þeirri von að koma hagkerfinu í gang, án árangurs, en stóraukin skuldsetning og lítill hagvöxtur eykur hættu á stórfelldu hruni og málsmetandi hagfræðingar, bæði hér sem erlendis, telja hrun evrópska efnahagssvæðisins í raun og veru tímaspursmál. Það er óvissa í kringum hugsanlega útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en Bretland er að sjálfsögðu líka mikilvægur útflutningsmarkaður fyrir Ísland, og svo er flóttamannavandinn óleystur og öfgahreyfingar sækja í sig veðrið í evrópskum stjórnmálum.

Schengen-samstarfinu er ógnað. Það er óvissa um framtíð þess og hvaða skoðun sem menn geta haft á því, hvort það er æskilegt eða óæskilegt að Ísland sé aðili að þessu samstarfi, er greinilegt að það er mikil óvissa um framtíð þess. Ísland er eyland og stendur innan Schengen, ólíkt Bretlandi og Írlandi sem kusu að standa utan við. En Ísland á mikilla hagsmuna að gæta í því að landamæraeftirlit sé hnökralaust, að þeir ferðamenn sem ferðast hingað til Íslands og eru orðnir þriðjungur af útflutningstekjum Íslands séu afgreiddir hnökralaust inn og út úr landinu. Ég hef kallað eftir því á fundum utanríkisnefndar að þeim skilaboðum verði komið til innanríkisráðuneytisins að unnin verði viðbragðsáætlun og vil ítreka þá kröfu mína hér enn og aftur. Ef það kemur til alvarlegra truflana á Schengen-landamæraeftirlitinu er ekki víst að hagsmunir Íslands verði í forgangi í Brussel. Þeir hljóta að forgangsraða í aðgerðum sínum eftir því hvar vandinn er allra brýnastur og stærstur. Því verðum við sjálf að eiga tilbúna viðbragðsáætlun um það hvernig eigi að lágmarka truflanir á landamæraeftirliti og tryggja öryggi hagsmuna okkar.

Ég tel í ljósi þessara aðstæðna og yfirlýsinga ráðamanna innan ESB um að Schengen-samstarfinu sé mjög ógnað mjög brýnt að innanríkisráðuneytið fullmóti viðbragðsáætlanir og ekki síður þarf að skoða í alvöru þann valkost að Ísland stæði til lengri tíma litið utan Schengen, eins og Bretland og Írland hafa ákveðið að gera.

Vandinn í sambandi við samninginn um evrópska efnahagssvæðið er að hér hrúgast inn sífellt fleiri lög og um sífellt umfangsmeiri svið. Það hafa komið tillögur frá Evrópusambandinu um að færa völd til ríkisstofnana sem eru þá innan ESB, færa þeim völd til að grípa beint inn í umhverfi okkar, sem stangast að sjálfsögðu á við stjórnarskrána. Það er innleiðingarhalli sem menn gera að umtalsefni, að við séum ekki nægilega fljót að innleiða allan þennan vaxandi fjölda gerða og laga sem kemur frá Brussel. Ég vil velta því upp hvort það sé einhver sérstök heimsmeistarakeppni í gangi um hver sé fyrstur að innleiða allt sem kemur frá Brussel. Ég held að aðalatriðið sé að við innleiðum góða löggjöf og vandaða sem þjónar íslenskum aðstæðum og íslenskum heimilum og því efnahagslífi sem hér er. Ég felli mig ekki við það að þingmannamál og málefni ríkisstjórnarinnar séu sett aftur fyrir löggjöf sem kemur frá Brussel. Ég held að þetta eigi alla vega að vera jafnstætt. Innleiðingarhallinn á innlendri löggjöf er ekki síður vandamál.

Ég held að í ljósi þeirra aðstæðna og óvissu sem ríkir um evrópska efnahagssvæðið og aðvarana sem meðal annars hafa komið fram í skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þá ógn sem steðjar að Íslandi vegna vandamála á evrópska efnahagssvæðinu þurfum við að gera það að (Forseti hringir.) forgangsefni að efla útflutning okkar til ríkja utan ESB. Til þess ætti að vera nokkurt svigrúm. Núna eru aðeins 5% af útflutningi okkar sem fara til Bandaríkjanna og (Forseti hringir.) enn minna sem fer til Kanada. Við ættum að íhuga átak (Forseti hringir.) til að efla útflutning okkar til ríkja sem standa utan við ESB.

Að lokum vil ég ítreka (Forseti hringir.) þakkir mínar til utanríkisráðherra og starfsmanna utanríkisþjónustunnar fyrir þeirra ágæta starf.