145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[13:47]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka ráðherranum svörin og vil í fyrsta lagi spyrja: Hvaða tillit var tekið til athugasemda þeirra aðila sem hér eru upptaldir? Eitt er að hitta viðkomandi aðila og hlusta á athugasemdir þeirra, og annað er að eiga í raunverulegu samráði og taka tillit til þeirra athugasemda. Í ályktunum ýmissa þeirra aðila sem hér eru upplistaðir kemur fram að viðkomandi setji sig eindregið upp á móti málinu.

Ég vil síðan spyrja um þá athugasemd að breytingin muni rýra gildi Þjóðminjasafns Íslands sem og trúverðugleika þess, sem Félag íslenskra safnamanna lýsir sérstökum áhyggjum yfir.

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra, því að þetta snýst jú um hans persónulegu áhugamál, eins og fram hefur komið ítrekað, að hann tekur til sín það sem heyrir undir hans persónulega áhugasvið: Telur hann koma til álita, verði þetta að lögum, að áskilið verði í lögunum að þau gangi úr gildi við næstu kosningar?