145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:30]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að þegar við öll sem hér erum inni tókum ákvörðun um að láta til okkar taka með því að bjóða okkur fram til Alþingis hafi það ekki verið til þess að standa í svona málum. Við buðum okkur fram vegna þess að við ætluðum að gera góða hluti fyrir þjóð okkar. Við ætluðum að vinna að því að byggja upp áhugaverða framtíð fyrir unga Íslendinga. Við ætluðum að vinna að því að búa til lífvænlegt og gott samfélag sem allir gætu búið í með reisn. En staðan er það alvarleg í þessu máli eins og fulltrúar og þingmenn allra flokka hafa verið að lýsa yfir í fjölmiðlum núna í morgun að það er með algerum ólíkindum að forseti skuli bjóða okkur upp á það að hér sé lögð fram dagskrá með fyrirspurnum eins og ekkert hafi í skorist. Þetta er mál sem við verðum að ræða. Það er lágmark að hæstv. forsætisráðherra leggi hér fram skýrslu fyrir þingið og fari yfir þau mál sem fram komu í (Forseti hringir.) sjónvarpsþætti gærkvöldsins og það misræmi sem er í ákveðnum atriðum í yfirlýsingum hans og því sem þar kom fram.