145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[17:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þegar hæstv. forsætisráðherra var til svara í óundirbúnum fyrirspurnum áðan kom í ljós að hann er algerlega galvaníseraður gagnvart allri gagnrýni. Það er eins og að skvetta vatni á gæs að koma með þá gagnrýni sem hefur komið fram í þessu stóra máli og þó að fjölmiðlar heimsbyggðarinnar beini kastljósi sínu að forsætisráðherra Íslands lætur hann eins og hann sé fórnarlamb í málinu. Það er eiginlega sorglegra en tárum taki að hæstv. forsætisráðherra ætli að reyna að standa þetta af sér eins og ekkert sé. Nú er Austurvöllur fullur af fólki sem misbýður þetta og mótmælin eiga alveg örugglega eftir að halda áfram og verða meiri og meiri. Þjóðin mun ekki láta bjóða sér að Tortóluríkisstjórn ríka fólksins (Forseti hringir.) ætli að hertaka landið og halda því í gíslingu. (Forseti hringir.) Við þurfum kosningar og kosningar strax (Forseti hringir.) og fá heiðarlegt fólk aftur til valda, ég segi aftur til valda, (Forseti hringir.) til þess að gera bragarbót á íslensku þjóðfélagi sem er orðið gerspillt.