145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

afstaða stjórnvalda til skattaskjóla.

[11:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnarmeirihlutinn er á engu undanhaldi. Það er mjög öflugur meiri hluti hér í þinginu fyrir áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi. Sjálfur er ég nú ekki orðinn forsætisráðherra. Það er rétt að það er trúnaðarbrestur í samfélaginu, bæði á stjórnmálamenn, stjórnvöld og fjármálakerfið. Það er mikill vandi sem hvílir á okkur hér inni að taka á því máli. Hann er auðvitað fordæmalaus, sá fjöldi Íslendinga sem valið hefur að setja eignir sínar með þessum hætti á lágskattaríki, þótt það sé löglegt, og það er ekkert að því þegar menn gera það á þann hátt að skila hér sköttum og skyldum og eru ekki að gera það í annarlegum tilgangi, löglega fengið fé. Það er hins vegar verulega mikið að því séu menn að því í stórum stíl til þess að fela fé eða borga ekki skatta til samfélagsins. Og ég held að við ættum að nota þetta tækifæri hér í dag til að hvetja alla þá sem eru uppvísir að því í Panama-skjölunum en einnig annars staðar, hjá öðrum bönkum, öðrum fyrirtækjum, alla þá sem hugsanlega hafa orðið fyrir því að gera slíkt á síðustu árum, að koma heim með þá peninga, gera hreint fyrir sínum dyrum. Við þurfum líka að fara yfir það í þessum sal, bæði stjórnvöld og þingið, hvort lagaumhverfi okkar sé rétt. Við þurfum að halda hér fundi. Við gætum haldið opinn fund í efnahags- og viðskiptanefnd, fengið ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra til að koma og upplýsa um það hvernig staða mála er. Við gætum tekið sérstaka umræðu eða jafnvel eitthvað fleira. Við þurfum augljóslega öll hér inni (Forseti hringir.) að axla þá ábyrgð að við þurfum að taka á þessu máli eins og allar aðrar þjóðir vilja gera og við eigum að leita fyrirmynda, hvar það er gert með bestum hætti. Það er mín skoðun.