145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns. Við í stjórnarandstöðunni erum að vinna af heilindum í nefndum, en við getum ekki haldið áfram eins og ekkert sé ef menn ætla ekki að sýna neitt á spilin. Það er bara óeðlilegt. Það er ekki hægt að vinna af heilindum í nefndum og fá ekkert á móti frá stjórnarliðum um hvaða mál eigi að setja í forgang, hvort einhver þingmannamál eigi að fara í gegn og annað því um líkt. Þetta eru óboðleg vinnubrögð.

Því miður hafa þessi orð oft verið sögð hér á Alþingi undanfarna mánuði, óboðleg vinnubrögð. Slíkt á auðvitað ekki að líðast á hv. Alþingi. Menn verða að fara að sýna á spilin. Annars er ekki hægt að líta öðruvísi á en að menn ætli sér að svíkja þau loforð að hafa kosningar í haust. Ef menn gera ekki neitt þá eru menn bara að (Forseti hringir.) vinna að því að svíkja það loforð. Því að loforðið var ekki bara um kosningar heldur líka hvað yrði fram að þeim tíma að kosið yrði og hvaða verkefni yrðu afgreidd hér.